Aldamótavandamálið í tölvukerfum

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 10:38:45 (6101)

1998-05-04 10:38:45# 122. lþ. 116.1 fundur 583. mál: #A aldamótavandamálið í tölvukerfum# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[10:38]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Eins og fram kemur er verið að glíma við þetta mál, þ.e. hvernig við skuli bregðast. Ég verð að lýsa nokkurri undrun yfir því að fyrst nú, á vordögum 1998, sé verið að setja á fót sérstaka nefnd til að hafa frumkvæði um aðgerðir. Ekki skal lasta það sem gert hefur verið á vegum opinberra aðila hingað til en mér sýnist þó að menn hafi verið harla andvaralausir í sambandi við þetta viðfangsefni og skort hafi á forustu um að taka á vandanum. Fyrst nú er þess að vænta að skipuð verði nefnd á vegum stjórnvalda, verkefnisstjórnar um upplýsingamálefni, til þess að taka á málinu.

Þetta vandamál hefur auðvitað blasað við lengi. Það var til umræðu árið 1980, vegna þess áratugar en hefur auðvitað orðið margfalt stærra vegna hinnar mjög svo almennu notkunar tölvukerfa og tölvustýringar. Þetta grípur afar víða inn og gæti orðið hrun í kerfum með verulegu tjóni. Það er ekki hægt að útiloka það ef ekki verður brugðist við þessu.

Eins og kom fram hjá hæstv. forsrh. er hin fjárhagslega ábyrgð fyrir truflunum og kostnaði óljós í mörgum tilvikum. Hæstv. ráðherra nefndi að komið gæti til úrskurðar dómstóla í þeim efnum. Það er því afar mikið í húfi. Því er mikilvægt að hér verði tekið fast á máli og ég skora á hæstv. ríkisstjórn að beita sér ákveðið í þessu.

Vandamálið getur komið upp þegar um næstu áramót í ýmsum kerfum. Síðan bætist það við, sem gerir málið í vissum tilvikum flóknara, að árið 2000 er auk þess hlaupár, virðulegur forseti.