Starfssvið tölvunefndar

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 11:05:07 (6109)

1998-05-04 11:05:07# 122. lþ. 116.4 fundur 456. mál: #A starfssvið tölvunefndar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:05]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Samkvæmt lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga hefur tölvunefnd það hlutverk að fylgja eftir framkvæmd laganna, standa vörð um friðhelgi einkalífs að því er varðar meðferð skráðra persónuupplýsinga og aðstoða menn við að ná fram rétti sínum ef svo ber undir. Þá veitir nefndin ýmis leyfi og úrskurðar í ágreiningsmálum sem upp koma um framkvæmd laganna.

Lögum samkvæmt er tölvunefnd sjálfstæð stjórnsýslunefnd í þeim skilningi að henni er skipað til hliðar við almennt stjórnkerfi ráðuneytisins og ákvörðunum hennar verður ekki skotið til ráðherra. Sem dæmi um nefndir sem eru sambærilegar að þessu leyti má nefna mannanafnanefnd, gjafsóknarnefnd, kærunefnd jafnréttismála og nefnd um bætur vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum. Ekki verður talið að starfssvið tölvunefndar eins og það er samkvæmt gildandi lögum fari í bága við þrígreininginu ríkisvaldsins sem tryggð er í 60 gr. stjórnarskrárinnar, enda verða ákvarðanir hennar bornar undir dómstóla með sama hætti og ákvarðanir annarra slíkra stjórnsýslustofnana. Þetta er vitaskuld lykilatriði að því er varðar þá spurningu hvort þessi nefnd starfi í samræmi við meginreglur um þrígreiningu ríkisvaldsins. Ákvarðanir hennar verða bornar undir dómstóla eins og allar ákvarðanir stjórnsýsluaðila.

Þá er þess að geta að í nýrri tilskipun Evrópusambandsins um meðferð persónuupplýsinga sem væntanlega verður felld undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið er áskilið að stofnanir sambærilegar við tölvunefnd skuli vera sjálfstæðar í störfum sínum. Í þeim aðildarríkjum Evrópusambandsins þar sem annar háttur hefur verið hafður á er nú unnið að lagabreytingum með það fyrir augum að tryggja sjálfstæði viðkomandi stofnana. Hér á landi er nú unnið að samningu frv. til nýrra laga um meðferð persónuupplýsinga, bæði til að undirbúa framkvæmd tilskipunarinnar hér á landi og til að aðlaga lögin nýrri tækni og breyttu upplýsingasamfélagi. Verður það frv. væntanlega tilbúið á þessu ári. Við samningu þess mun m.a. verða kannað hvort efni eru til að breyta því hlutverki sem tölvunefnd hefur gætt sl. 16 ár og eftir atvikum að koma á fót sérstakri kærunefnd, allt með hliðsjón af þeim reglum sem umrædd tilskipun Evrópusambandsins setur, m.a. að því er varðar sjálfstæði og verkefni slíkrar stofnunar.

Að því er varðar það sérstaka mál sem hv. þm. nefndi í inngangi að fyrirspurn sinni, þá er það að segja að ég hef ekki upplýsingar um það en sé svo eins og fram kom í máli hv. þm. að önnur lög kveði á um hvaða upplýsingar megi birta, þá geta þau gilt og þá kemur ekki til að tölvunefnd hafi heimildir til þess að stöðva birtingu slíkra upplýsinga og þá verða menn að beina athygli sinni að viðkomandi löggjöf ef menn telja að hún gangi of langt í því að heimila að tilteknar upplýsingar verði birtar.