1998-05-04 11:15:09# 122. lþ. 116.5 fundur 671. mál: #A vinnuregla Þróunarsjóðs sjávarútvegsins við úreldingu fiskvinnsluhúsa# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:15]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Haustið 1996 var einu sinni sem til oftar til umfjöllunar á hinu háa Alþingi frv. til laga um breytingu á lögunum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Í umfjöllun um það frv. kom fram að einungis sjö fiskvinnsluhús höfðu verið úrelt og varð sú staðreynd með öðru til þess að ákveðið var að taka ekki frekara þróunarsjóðsgjald af fiskvinnslunni enda hafði hún þá þegar greitt til sjóðsins fé langt umfram það sem nýtt hafði verið til úreldingar í fiskvinnslunni.

Við umfjöllunina upplýstist jafnframt vinnuregla sjóðsins að fiskvinnsluhús væru ekki keypt af sjóðnum til úreldingar nema eigandinn sjálfur væri áður búinn að útvega kaupanda. Þetta var harðlega gagnrýnt í umræðum um frv. og m.a. bent á að það hafi ekki verið gefið í skyn í lagatextanum að svo skyldi farið með. Bent var á að þessi vinnuregla mundi vera meginástæða þess að nánast ekkert hafði orðið úr úreldingum fiskvinnslustöðva. Hins vegar mætti einmitt ætla að þeir eigendur fiskvinnslustöðva sem gætu ekki fundið kaupanda að eignunum þyrftu frekar á atbeina Þróunarsjóðsins að halda. Jafnframt var bent á að ýmsum sem var kunnugt um þessa reglu hafi ekki þótt ómaksins vert að sækja um úreldingu við þessar aðstæður þar sem þeir töldu sig ekki geta fundið kaupanda að húsum sínum. Kom mönnum í opna skjöldu að svona skyldi hafa verið staðið að málum og ekki í anda laganna eða þess vilja sem hafi legið að baki.

Í nefndaráliti minni hlutans við afgreiðslu þess frv. sem lá fyrir haustið 1996 kemur fram að minni hlutinn telur gagnrýnivert hvernig ákvæði um úreldingu fiskvinnsluhúsa hafi verið túlkuð. Í umræðunni kom fram hjá formanni sjútvn. að hann hafði enga trú á því að takmörkun stjórnarinnar fengi staðist og var því jafnframt spáð ef aðilar sem sótt höfðu um úreldingu en ekki fengið vegna þessarar vinnureglu leituðu með mál sitt til dómstóla, þá ynnu þeir slíkt mál.

Nú hefur það orðið, herra forseti, þar sem Þróunarsjóður hefur verið dæmdur til að afgreiða umsókn Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum en það var einmitt eitt þeirra fyrirtækja sem átti inni umsókn þegar fjallað var um málið á hinu háa Alþingi haustið 1996. Ég hef þess vegna beint eftirfarandi spurningum til hæstv. sjútvrh.:

1. Hve mörg fiskvinnsluhús hefur Þróunarsjóður sjávarútvegsins keypt til úreldingar á því tímabili sem honum hefur verið heimilt að kaupa slík hús?

2. Hve mörgum umsóknum hefur verið vísað frá á þeirri forsendu að umsækjendur gátu ekki teflt fram nýjum kaupanda að eignunum, en það var sú vinnuregla sjóðsins sem nú hefur verið dæmd ólögmæt?

3. Hvaða áhrif telur ráðherra að nýfallinn dómur í máli Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum hafi gagnvart þeim aðilum sem var hafnað á forsendum þeirrar vinnureglu sem nú hefur verið dæmd ólögmæt?

4. Hver er réttarstaða þeirra fyrirtækja sem aldrei sóttu um úreldingu þar sem þau töldu sig ekki geta uppfyllt þá vinnureglu sjóðsins sem hefur nú verið dæmd ólögmæt?