Kennsla í grunnskólum

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 11:28:20 (6118)

1998-05-04 11:28:20# 122. lþ. 116.6 fundur 512. mál: #A kennsla í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:28]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka þessar fyrirspurnir. Um þær mætti hafa mjög langt mál til þess að fjalla um einstök atriði sem hv. þm. drap á í máli sínu. Það er alveg rétt að við þurfum að gera allt sem í valdi okkar stendur til að tryggja nemendum í grunnskólum kennslu menntaðra kennara eins og spurningin hljóðar um en við skulum átta okkur á því að það sem hefur verið að gerast m.a. og veldur því að menn standa í sérstökum sporum að þessu leyti núna er það að vegna aukningar á umfangi starfsins í grunnskólanum hefur verið fjölgað þar um það sem menn telja allt að 250 stöðugildum á tiltölulega skömmum tíma. Það er sá vandi sem við stöndum m.a. frammi fyrir að við þurfum að auka umfangið í grunnskólanum og fjölga þar stöðugildum og það hefur skapað sérstakar aðstæður þegar menn fjalla um réttindalausa kennara eða leiðbeinendur núna og hugtakið menntaðir kennarar sem kemur fyrir í þessari fyrirspurn er ekki hugtak sem er skilgreint neins staðar sérstaklega og það má að sjálfsögðu um það deila hvaða kennarar eru menntaðir og ekki menntaðir. Ég tel að allir þeir sem sinni kennslu í skólum séu menntaðir en þeir hafa ekki allir fullnægt þeim skilyrðum sem eru sett í lögverndunarlögum. Þar verða menn að gera mun á og eins og fram kom í máli hv. ræðumanns, sem talaði fyrir hönd fyrirspyrjanda, er staðan nú þannig að 82,8% af öllum kennurum, samkvæmt yfirliti frá Hagstofu Íslands um fjölda réttindakennara og leiðbeineinda, þá á ég við réttindakennara samkvæmt lögverndunarlögunum. Í grunnskólum skólaárið 1997--1998 eru kennarar með réttindi alls 3.116 eða 82,8% á landinu öllu en leiðbeinendur eru 646 eða 17,2%. Þetta er það hlutfall sem nú er og það er þetta bil sem við þurfum að brúa og setja okkur það mark að ná því að allir sem kenna í skólum hafi full réttindi samkvæmt lögverndunarlögunum.

Við gerum það með ýmsum hætti. Við gerum það m.a. með því að efla kennaramenntun stofnunarinnar og að því hefur verið unnið. Það hefur verið stofnuð kennaramenntunardeild við Háskólann á Akureyri og eins og þingmenn vita þá tók til starfa, frá 1. janúar sl., Kennaraháskóli Íslands undir nýjum formerkjum þar sem þrír framhaldsskólar voru felldir að gamla Kennaraháskólanum. Það er ætlunin að efla þá stofnun. Raunin er sú hér að fleiri vilja innritast í skólann en komast þar að og vonandi verður það með því að skólinn verður öflugri að unnt verður að taka á móti fleiri nemendum þar.

[11:30]

Varðandi það sem aðallega er á valdi menntmrh. í þessu efni, það er efling kennaramenntunar, og á það hef ég hef lagt áherslu, er símenntun og endurmenntun og að mikið átak verði gert í því í kjölfar þess að nýjar námskrár koma til sögunnar. Þannig verði einnig séð til þess að kennarar sem starfa í skólunum séu alltaf sem best til þess færir að sinna kennslunni í samræmi við kröfur á hverjum tíma. Og raunar er það athyglisvert í úttekt á kennaramenntun, sem nýlega var birt, að þar leggja menn áherslu á að grunnmenntunina þurfi í sjálfu sér ekki að lengja heldur beri að leggja höfuðáherslu á símenntun og endurmenntun þannig að kennararnir séu alltaf til þess búnir að sinna störfum sínum í samræmi við kröfur á hverjum tíma. Þetta er mjög mikilvægt mál og fyrir þessu ætla ég að beita mér.

Um ráðningu starfsmanna í grunnskóla er það eins og menn vita í höndum sveitarfélaganna. Það er málefni sveitarfélaganna, sveitarstjórna og skólastjóra að laða til sín menntað fólk og kennara og kennara með réttindi til kennslustarfa í grunnskólum.

Spurt var hvort ráðherra teldi réttlætanlegt að sérkennsla í grunnskólum væri í höndum einstaklinga sem hvorki hefðu menntun í sérkennslufræðum né almenna kennaramenntun. Í sjálfu sér er það réttlætanlegt að svo sé, miðað við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir. Við þurfum að veita þessa þjónustu og það skortir enn, því miður, nægilegan fjölda menntaðra manna til þess að gera það og þá er það gert á grundvelli laganna og með þeim heimildum sem við höfum samkvæmt lögum nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og stafsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, að tekið er á þeim málum í samræmi við það og þau hljóta þá lögmæltu meðferð sem þar er getið um. Ég vil taka undir það með hv. ræðumanni að ég tel að það fólk sem hefur ráðist til starfa sem leiðbeinendur og líka jafnt í almennri kennslu og til sérkennslu sé oft mjög vel hæft til sinna starfa þó það uppfylli ekki þær kröfur sem réttindalögin gera til starfsmanna í skólum til þess að öðlast þau réttindi sem þar er mælt fyrir um.