Tannlæknaþjónusta

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:10:50 (6136)

1998-05-04 12:10:50# 122. lþ. 116.9 fundur 681. mál: #A tannlæknaþjónusta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:10]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Samkvæmt 3. gr. laga um heilbrigðisþjónustu ber landlækni að sinna kvörtunum og kærum sem varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar og gildir það einnig um tannlæknaþjónustu. Ef ágreiningur verður má auk þess vísa honum til sérstakrar hlutlausar nefndar sem er nú undir forsæti sýslumannsins í Reykjavík.

Ég hef þegar beitt mér fyrir því að starf nefndarinnar verði eflt þannig að hún geti ráðið sérstakan starfsmann til að flýta umfjöllun. Þá er í 28. gr. laga um réttindi sjúklinga ákvæði um rétt þeirra til að beina kvörtunum til landlæknis eða kvörtunarnefndar. Þessu til viðbótar vil ég benda á frv. sem ég hef lagt fram á Alþingi til breytingar á læknalögum sem gilda einnig um tannlækna. Í frv. eru ítarlegar reglur um hvernig bregðast skuli við ef upp koma óvænt atvik við meðhöndlun sjúklinga. Markmiðið með frv. er að koma á fót sérstöku viðbragðskerfi ef óvæntan skaða ber að höndum, bæði til að tryggja að mál fái þegar nauðsynlega rannsókn en einnig til að heilbrigðisyfirvöld fái strax upplýsingar og geti eftir atvikum brugðist við. Með auknu eftirliti og skráningu er þannig unnt að efla gæði heilbrigðisþjónustunnar og auka réttindi sjúklinga.

Þá vil ég einnig geta þess að drög að frv. til laga um sjúklingatryggingar liggja nú fyrir í ráðuneytinu. Það frv. verður sent til umsagnar nú í sumar og vænti ég þess að það verði lagt fyrir Alþingi þegar í byrjun haustþings. Frv. gerir ráð fyrir mun víðtækari rétti sjúklingatrygginga en núgildandi ákvæði almannatryggingalaga.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir þær leiðir sem hér hefur verið lýst hafa Neytendasamtökin nú beint erindi til ráðuneytisins þess efnis að hlutlausri úrskurðarnefnd um tannlæknaþjónustu verði komið á laggirnar. Eins og ég hef rakið tel ég ekki lagarök standa til þess að slík úrskurðarnefnd geti fjallað um meint mistök í faglegri þjónustu og ég sé ekki hvernig ráðuneytið geti átt aðild að slíkri nefnd.

Sé litið til fjárhagslegra þátta hefur úrskurðarnefnd um samkeppnismál úrskurðað að heilbrigðisþjónusta eigi undir gildissvið samkeppnislaga og sama álit hefur komið frá hv. efh.- og viðskn. Alþingis sem fjallaði um frv. til samkeppnislaga á Alþingi. Með vísan til þess er vandséð hvernig ráðuneytið getur komið að þáttum sem varða verðlagningu þjónustunnar að öðru leyti en nú er gert samkvæmt lögum um almannatryggingar og tekur einungis til þess kostnaðar sem almannatryggingar taka þátt í að bera í meðferð barna, öryrkja og aldraðra. Þess eru hins vegar mörg dæmi að Neytendasamtökin og ýmsir aðilar í þjóðfélaginu hafi náð samningum um að koma á fót sameiginlegri úrskurðarnefnd á afmörkuðum sviðum. Slíkar nefndir hafa einungis vald samkvæmt samningi aðila og að viðkomandi seljandi þjónustu eða vöru hafi ákveðið að lúta valdi nefndarinnar.

Virðulegi forseti. Ég tel að ráðuneytið geti ekki haft neins konar forgöngu í að koma upp úrskurðarnefnd varðandi tannlæknaþjónustu sérstaklega. Í löggjöf okkar er ákveðið ferli fyrir rannsókn og úrskurð um tilvik sem varða meint mistök í þjónustu og með fyrirliggjandi frv. til breytingar á læknalögum er stefnt að því að auka enn öryggi sjúklinga í þeim tilvikum sem óvænt atvik koma upp við meðhöndlun sjúklinga. Þá er á lokastigi frv. til laga sem eykur mjög möguleika sjúklinga til bóta þegar óvænt atvik verða við meðhöndlun sjúklinga án þess að unnt sé að sanna að um bein mistök hafi verið að ræða. Með þessu hætti tel ég að réttaröryggi borgaranna að því er varðar tannlæknaþjónustu sem og aðra heilbrigðisþjónustu sé eins tryggð og hægt er.