Tannlæknaþjónusta

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:15:25 (6137)

1998-05-04 12:15:25# 122. lþ. 116.9 fundur 681. mál: #A tannlæknaþjónusta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:15]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Það upplýsist hér eins og stundum áður að hæstv. heilbrrh. er afskaplega sátt við ríkjandi ástand og það sem í gildi er í dag. Hún minnti á að sérstök nefnd væri starfandi á vegum ráðuneytisins sem ætti að fjalla um kærur. En eitthvað gaf hún nú í skyn að lítið líf væri með þeirri nefnd en hún hyggst endurlífga hana, hæstv. ráðherrann.

Það er hægt, segir hæstv. ráðherra, að kæra til landlæknis ef fólk telur sig misrétti beitt í tannlækningum sem og öðrum lækningum. Það hefur nú ekki alltaf gengið vel að fá leiðréttingu sinna mála þegar fólk hefur staðið frammi fyrir því að vera búið að borga tugi þúsunda króna í aðgerðir sem tannlæknirinn hefði átt að sjá fyrir fram að voru gagnslausar, árangurslausar björgunaraðgerðir. Ég veit um mörg dæmi þess, þó að ég vilji líka taka fram að sú tannlæknaþjónusta sem við getum fengið á Íslandi er yfirleitt ákaflega góð þó að hún sé auðvitað dýr, að fólk hefur þurft að greiða mikla peninga fyrir það sem hefur verið lítils virði. Og hefur ekki haft neinn ákveðinn aðila sem það getur farið með sín vandræði til, nema þá kannski lokaða nefnd á vegum Tannlæknafélagsins, sem er auðvitað ekki fullnægjandi úrræði.

Mér finnst þessi uppástunga Neytendasamtakanna um hlutlausa úrskurðarnefnd allrar athygli verð og í það minnsta þess verð að hæstv. heilbrrh. svari fyrirspurnum samtakanna þar að lútandi.