Tannlæknaþjónusta

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:17:52 (6138)

1998-05-04 12:17:52# 122. lþ. 116.9 fundur 681. mál: #A tannlæknaþjónusta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:17]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. hafi ekki hlustað á ræðu mína áðan svo ég verð að endurtaka hluta af henni. Hv. þm. sagði að ráðherra væri ánægður með ríkjandi ástand. Ég nefndi hér frv. til laga sem liggur fyrir þinginu um breytingar á læknalögum, sem einmitt kemur til móts við þá einstaklinga sem hér hefur verið rætt um. Þetta hefur farið fram hjá hv. fyrirspyrjanda. Ég nefndi einnig í máli mínu frv. um sjúklingatryggingu sem er nú tilbúið í ráðuneytinu og fer til umsagna í sumar þannig að ég taldi því ýmislegt upp til úrbóta.

Varðandi sérstaka úrskurðarnefnd sem sýslumaðurinn í Reykjavík veitir forustu, þá sagði ég líka í máli mínu að við hefðum leyft sérstakan starfsmann til viðbótar við þá sem fyrir voru einmitt til að sinna slíkum kvörtunum sem fram koma. Það var því í hæsta máta ósanngjarnt af hv. þm. að telja að ekkert væri að gert.

Varðandi það sem Neytendasamtökin hafa verið að ræða um, þ.e. nýja úrskurðarnefnd, þá sagði ég áðan og endurtek það að ráðuneytið getur ekki haft forgöngu um það atriði.