Tóbaksvarnir

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:28:16 (6141)

1998-05-04 12:28:16# 122. lþ. 116.10 fundur 688. mál: #A tóbaksvarnir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:28]

Fyrirspyrjandi (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er ljóst að mjög markvisst er unnið að forvarnastarfinu. Mér finnst ánægjulegt að heyra um þessar nýjungar sem tóbaksvarnanefnd er með á sínum vegum og vænti þess að þær eigi eftir að skila miklum árangri.

En vegna þess að auðvitað er margbúið að sýna fram á hversu sterkt samband er milli reykinga og neyslu annarra vímuefna þá vil ég sérstaklega geta þess að það er von mín að áætlun ríkisstjórnarinnar ,,Ísland án eiturlyfja 2002`` skili árangri. Það má í raun og veru segja að styrkur þeirrar áætlunar er að hún beinist að því að virkja samtök foreldra, frjáls félagasamtök, íþrótta- og tómstundafélög og skóla, og alla þá sem starfa að þessum málum, til að sameina krafta sína gegn vímuefnaneyslu ungmenna og þar með reykingum.