Köfun niður að Æsu ÍS 87

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:34:50 (6144)

1998-05-04 12:34:50# 122. lþ. 116.11 fundur 586. mál: #A köfun niður að Æsu ÍS 87# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:34]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurt hver hafi verið heildarkostnaður við köfun niður að Æsu ÍS 87 á síðasta ári, þar með talinn kostnaður vegna varðskips með áhöfn, lögregluyfirvalda, Siglingastofnunar og ID-nefndar. Um þetta segir Siglingastofnun:

Samgrn. fól Siglingastofnun með bréfi dagsettu 17. apríl 1997 að ganga til samninga við breska köfunarfyrirtækið Seawork Marine Services Ltd. um köfun að flaki Æsu í samræmi við tilboð fyrirtækisins frá 11. apríl 1997 og skyldi haft samráð við rannsóknarnefnd sjóslysa við gerð verklýsingar. Jafnframt var Siglingastofnun falið að óska eftir þátttöku Landhelgisgæslu í aðgerðinni og annast stjórn verksins í heild. Kostnaður Siglingastofnunar vegna verksins nam samtals um 13,7 millj. kr. Þar af eru 12,4 millj. kr. beinn útlagður kostnaður en fjárveiting fékkst á fjáraukalögum 1997 til að standa straum af honum. Óbeinn kostnaður stofnunarinnar nam um 1,3 millj. kr. m.a. vegna launa þeirra starfsmanna sem að verkinu unnu. Þennan kostnað bar stofnunin. Útlagður kostnaður er með virðisaukaskatti.

Eins og fram kemur á meðfylgjandi ljósriti af bréfi stofnunarinnar til samgrn., dagsettu 27. júlí 1997, þar sem kostnaður vegna köfunarinnar er tíundaður, er ekki meðtalinn kostnaður vegna varðskips með áhöfn, lögregluyfirvalda eða ID-nefndar að undanskildu því að lagður var til bátur sem flutti lögreglumenn daglega milli lands og varðskips, aðstoð við sýslumann.

Herra forseti. Ég tel rétt, ef þetta svar telst ófullnægjandi, að leitað verði eftir því við hæstv. dómsmrh. hvort hann hafi þær tölur á reiðum höndum sem hér um ræðir, en lögreglumál og landhelgisgæsla fellur ekki undir samgrn.

Í öðru lagi er spurt: Hvaða íslenskir aðilar buðust til þess að taka verkið að sér, hvert var tilboð þeirra, hvenær var tilboði þeirra svarað og hvers vegna var því hafnað?

Um þetta segir Siglingamálastofnun, með leyfi forseta:

,,Siglingastofnun bárust ekki tilboð frá íslenskum aðilum í að kafa niður að Æsunni. Þar sem flakið liggur á um 75 metra dýpi krefst verkefnið sérútbúnaðar og a.m.k. fimm þrautþjálfaðra kafara sem vanir eru að vinna saman og okkur er ekki kunnugt um að slíkir menn finnist hér á landi.``

Við þetta vil ég bæta að hinn 26. febrúar 1997 barst samgrn. bréf frá Djúpmynd. Þar er talað um að líta beri á það bréf sem trúnaðarmál, það er sérstaklega tekið fram, málefnið er svo skýrt:

,,Umsókn um styrk til að ná Mb. Æsu ÍS 87 upp af hafsbotni í mynni Arnarfjarðar og koma henni til slipps á Ísafirði til nánari rannsóknar. Umsókn þessa ber að líta á sem trúnaðarmál.`` Þarna er því ekki um tilboð að ræða. Ég vil að það komi fram og verði leiðrétt.

Á hinn bóginn tókust samningar við Djúpmynd um köfun. Rannsóknarnefnd sjóslysa taldi æskilegt að reynt yrði að ná flakinu af hafsbotni eða ná myndum af flakinu. Þegar það lá ljóst fyrir barst umsókn frá Djúpmynd og náðist samkomulag við þá í nóvember 1996 um að greiða félaginu 2 millj. kr. fyrir að mynda flak Æsu. Lítið kom út úr þeirri myndatöku og lauk greinargerð Djúpmyndar vegna neðansjávarmyndatökunnar svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Ekki tókst að staðfesta hvort mennirnir séu enn um borð en töluverðar líkur eru á því að annar mannanna sé í káetu sinni. Ekki þótti ráðlegt að eyða meiri tíma að svo komnu máli við verkefnið og teljum við að búið sé að gera það sem hægt er meðan flakið liggur á svo miklu dýpi.``

Þetta er um það mál að segja.

Í þriðja lagi er spurt hvers vegna verkið hafi ekki verið boðið út en ástæðan er sú að það var talið mjög brýnt að kafa niður að flakinu svo fljótt sem auðið væri. Breska köfunarfyrirtækið gat hafið köfun innan viku. Þeir voru lausir með búnað og menn en besti tíminn til að vinna þetta verk er í maí eða júní meðan birta er næg og þörungagróður ekki farinn að byrgja sýn. Af þeim sökum þóttumst við heppnir að hið breska fyrirtæki skyldi vera til reiðu og gengið var til samninga við það á þessum grundvelli, einfaldlega vegna þess að okkur var ekki kunnugt um annað fyrirtæki sem brugðist gæti svo skjótt við.