Rannsóknarnefnd sjóslysa

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:52:37 (6150)

1998-05-04 12:52:37# 122. lþ. 116.12 fundur 587. mál: #A rannsóknarnefnd sjóslysa# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:52]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Varðandi formannaskiptin í rannsóknarnefndinni virðist nokkuð augljóst í ljósi svara ráðherrans að síðari formannsskiptin hafi orðið vegna þess að fram kom að einn aðstandandi málsins hygðist grípa til málaferla. Ég vil segja um það að auðvitað á ekki að skipa mann formann í nefndinni sem kann að vera vanhæfur að einhverju leyti. Það er ekki góð stjórnsýsla að skipa mann sem formann nefndarinnar sem er augljóslega vanhæfur en ætla að láta það gott heita ef enginn hreyfir andmælum við því. Ég ætla ekki í sjálfu sér að fella dóma um hæfi þess sem vék í málinu að öðru leyti en því sem hæstv. samgrh. hefur sjálfur komist að niðurstöðu um að hann er vanhæfur í málinu. Því átti auðvitað aldrei að skipa hann til starfa í upphafi.

Ég vil svo segja að öðru leyti um þann lærdóm sem við getum dregið af þessu máli en eins og fram kom fyrr í umræðunni eru liðnir tæpir 22 mánuðir síðan atvikið átti sér stað. Það er augljóst að skýringar fást ekki með góðu móti og hugsanlega fáum við ekki skýringar á orsökum slyssins miðað við fyrirliggjandi gögn, það kemur í ljós síðar, en það er augljóst að skýringar hefðu a.m.k. fengist miklu fyrr ef brugðið hefði verið á það ráð sem ég gerði kröfu um í febrúar á síðasta ári að skipinu yrði lyft upp og rannsakað þannig. Það er vel hægt, það er fjárhagslega mögulegt og stjórnvöld eiga að sjálfsögðu að gera það.