Rannsóknarnefnd sjóslysa

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:55:02 (6151)

1998-05-04 12:55:02# 122. lþ. 116.12 fundur 587. mál: #A rannsóknarnefnd sjóslysa# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:55]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég átta mig satt að segja ekki á því og það kom ekki fram í máli hv. þm. hvers vegna hann telur að það mál sem hér um ræðir og það hörmulega slys sem þar varð marki þá sérstöðu að ekki þurfi jafnframt að standa jafn vel að rannsókn á öðrum slysum og þessu. Auðvitað hlýtur það svo að vera. Það er rétt hjá hv. þm. að í febrúar á sl. ári vakti hann máls á þessum atriðum en á hinn bóginn lá ekki fyrir og kom ekki fram tillaga um það við fjárlagagerðina fyrir árið 1997 að samgrn. fengi sérstaka fjárveitingu til þess að ná flakinu upp. Það er því greinilegt að hv. þm. hefur á þeim tíma ekki verið farinn að velta málinu fyrir sér.

Ég vil jafnframt segja að það er sérstakt um þetta mál og hefði verið svo hver sem var formaður sjóslysanefndar á sl. vetri að vegna þeirra efasemda sem upp komu var óhjákvæmilegt að skipaður yrði sérstakur formaður nefndarinnar vegna þess að formaður nefndarinnar hafði verið til ráðuneytis um það hvernig staðið yrði að rannsókn málsins með samgrh. og með Siglingastofnun. Kannski má velta fyrir sér hvort rétt sé að standa þannig að málum í framtíðinni og velta líka fyrir sér tengslum nefndarinnar við ráðuneytið.

Eins og stjórnsýslulög eru núna tel ég t.d. að ekki væri rétt að skipa á ný starfsmann samgrn. formann sjóslysanefndar þó svo að yfir málið hafi verið farið á sínum tíma og það hafi verið talið að það bryti ekki í bága við stjórnsýslulög. Þá tel ég eftir sem áður að til þess að niðurstaðan sé hafin yfir vafa og ekki komi upp óþarfatortryggni um tengsl rannsóknarnefndar sjóslysa við viðkomandi ráðherra tel ég að það sé ekki réttur mælikvarði.

Ég vil svo að síðustu segja, herra forseti, að ég met þann áhuga sem hv. þm. hafa á málinu en ég vil líka segja að ég tel að það sé ekki að því leyti einstakt að okkur beri ævinlega að reyna að kanna orsakir sjóslysa eins vel og kostur er ef það gæti orðið okkur til lærdóms og til þess að koma í veg fyrir slys síðar.