Menntun leigubifreiðastjóra með tilliti til ferðaþjónustu

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:58:35 (6152)

1998-05-04 12:58:35# 122. lþ. 116.13 fundur 589. mál: #A menntun leigubifreiðastjóra með tilliti til ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:58]

Fyrirspyrjandi (Ólafur Örn Haraldsson):

Hæstv. forseti. Ég legg þá fyrirspurn fram til hæstv. samgrh. hvort ráðherra hafi þegar hafið undirbúning að sérstökum námskeiðum fyrir leigubifreiðastjóra þar sem þeir eru þjálfaðir í að veita erlendum ferðamönnum þjónustu eða eru uppi áform um að koma slíkum námskeiðum á? Hvert er hlutverk leiguaksturs í uppbyggingu ferðaþjónustu hérlendis? Svo hljóðar þessi fyrirspurn en að baki henni liggja hagsmunir ferðaþjónustunnar en mikilvægi ferðaþjónustu er óþarfi að tíunda hér.

Ferðaþjónustan byggir á því að allir sem þar koma að máli bæti gæði þjónustunnar og að allt það hráefni sem ferðamenn fá sé þannig að ferðamenn fái fyllilega það sem þeir eru að leita eftir og að Ísland verði áfram eftirsóknarvert í augum þeirra.

[13:00]

Að þessu koma að sjálfsögðu margir aðilar. Einn af þessum aðilum er leigubílstjórinn sem flytur ferðamanninn. Sumir ferðamenn eru á slíkri ferð að þeir hitta jafnvel enga Íslendinga aðra en leigubílstjórana. Dæmigerðir slíkir eru þeir sem koma hingað á ráðstefnu en fara ekki út um land heldur hafa aðeins skamma viðdvöl. Það er því mjög áríðandi að leigubílstjórar veiti sem allra besta þjónustu. Ég veit af viðtölum mínum við leigubílstjóra að þeir sækjast mjög eftir því að geta staðið undir þessum kröfum og hagsmunum ferðaþjónustunnar. Þeir hafa sýnt það í verki með því að koma á margvíslegum námskeiðum og hyggja á enn frekari aðgerðir hvað það varðar. Samgrn. hefur svo sannarlega tekið þátt í þessu með mikilvægum stuðningi og með því að gefa út námskrá. En það er einmitt sú námskrá sem ég er að spyrja um. Er ráðherrann ekki tilbúinn til að beita sér fyrir því að námskeið í umgengni við ferðamenn verði tekið inn í námskrá leigubílstjóranna?

Ég tek skýrt fram að ríkið mun ekki bera neinn kostnað af þessu. Leigubílstjórarnir gera það sjálfir. Á þessu námskeiði þyrfti að vera tungumálakennsla, umgengni og þjónusta og framkoma við ferðamenn. Þeir þurfa að hafa þekkingu á staðháttum landsins og á högum lands og þjóðar. Ég tek fram að slíkt námskeið eða slík þekking leigubílstjóra mundi ekki með neinum hætti skyggja á aðra heldur veit ég að því mundi verða fagnað af öðrum sem vilja bæta íslenska ferðaþjónustu.