Stöðugleiki og öryggisbúnaður skipa

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:18:00 (6158)

1998-05-04 13:18:00# 122. lþ. 116.14 fundur 590. mál: #A stöðugleiki og öryggisbúnaður skipa# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:18]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Öryggismál sjómanna hafa verið mikið til umræðu á undanförnum mánuðum og árum og ekki að ástæðulausu. Slys á sjómönnum hafa verið allt of tíð, 500--600 á ári samkvæmt skýrslum sjóslysanefndar en hefur sem betur fer farið heldur fækkandi að undanförnu og má sjálfsagt fyrst og fremst þakka það árangursríku starfi Slysavarnaskóla sjómanna.

Fyrir hálfum mánuði var undirritað merkilegt samkomulag milli Farmanna- og fiskimannasambandsins, Sjómannasambandsins, Vélstjórafélagsins, LÍÚ og Slysavarnafélags Íslands sem vilja skipuleggja samræmt öryggiskerfi fyrir alla sjómenn og skip og báta skráð á Íslandi með það að meginmarkmiði að gera sjómennsku öruggari, koma í veg fyrir slys á mönnum og koma í veg fyrir tjón á verðmætum. Þetta samkomulag er í 12 liðum sem ekki er tími til að rekja hér en samtökin lýsa sig reiðubúin til að aðstoða við uppbyggingu þessa öryggiskerfis, eiga samstarf við opinber stjórnvöld og aðra aðila sem áhuga hafa á verkefninu.

Mér finnst þetta samkomulag merkilegt og mikilvægt innlegg í umræðuna um öryggismál sjómanna og taldi því rétt að greina frá því hér en þarna taka höndum saman helstu samtök sjómanna, útvegsmanna og slysavarnafólks.