Iðnaðaruppbygging á Vestfjörðum

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:34:43 (6164)

1998-05-04 13:34:43# 122. lþ. 116.15 fundur 666. mál: #A iðnaðaruppbygging á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:34]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að þær upplýsingar sem ég var hérna með um staðhætti eru byggðar á skýrslu frá 1983 frá svokallaðri staðarvalsnefnd. Það er jafnframt rétt að miklar breytingar hafa orðið síðan þá og allt of hægt gengið að fara ofan í þær breytingar á því landsvæði sérstaklega.

Því er hins vegar ekki að neita að ef við horfum til orkufreks iðnaðar, auðvitað gæti iðnaður verið byggður upp á annan hátt en bara sem orkufrekur iðnaðar, en ef við horfum bara á orkufreka iðnaðinn þá eru þessum svæðum ákveðnir annmarkar eða takmörk sett í þeim efnum vegna þess að það er raunar að mati þeirra sem gerst til þekkja bara ein virkjun, Ófeigsstaðavirkjun, sem er --- og það er reyndar rétt hjá hv. þm. --- af svipaðri stærð og Blönduvirkjun, 800 gígavattstunda orkugeta, en fleiri orkukostir eins og staðan er núna eru ekki á samkeppnisfæru verði. Því var það að við ákváðum að styrkja Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða á síðasta ári til þess að fara út í styrkleika- og veikleikagreiningu á svæðinu.

Ég hef rætt það við Vestfirðinga að við þurfum kannski að fara út í enn frekari greiningu á styrkleikum og veikleikum einstakra svæða innan Vestfjarða vegna þess að ekki er hægt að horfa á Vestfirðina í heild sinni sem eitt atvinnusvæði, en hins vegar eru að verða til ákveðin atvinnusvæði vegna betri samgangna. Við þurfum að fara að horfa á það hvort þar sé ekki hægt að líta til iðnaðaruppbyggingar. Ég býst við því og það verður á þessu ári einhverjum fjármunum ráðstafað í gegnum Fjárfestingarskrifstofu Íslands og Markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar einmitt til slíkrar styrkleika- og veikleikagreiningar eins og menn hafa gert og hv. þm. tók sem dæmi Austfirði og Skagafjörð. Ég held að mjög mikilvægt sé í ljósi þess sem hér hefur verið sagt og reyndar vitað var áður, að Vestfirðirnir verði eitt af þeim atvinnusvæðum sem sérstaklega verða metnir í því sambandi.