Virðisaukaskattur af handverksmunum úr íslenskum náttúruefnum

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:37:47 (6165)

1998-05-04 13:37:47# 122. lþ. 116.16 fundur 677. mál: #A virðisaukaskattur af handverksmunum úr íslenskum náttúruefnum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:37]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Á liðnum árum hefur færst í vöxt að fólk, einkum á landsbyggðinni, framleiði handverksmuni úr efni úr íslenskri náttúru. Má sjá fallega muni úr ull, tré, horni, beini, leðri og roði. Þarna er um listsköpun og handverk að ræða en líka úrræði í atvinnuleysi víða til sveita. Þarna er virkjun hugvits sem auk atvinnusköpunar höfðar til ferðamanna og skapar gjaldeyristekjur. Hráefni sem áður var ekki nýtt verður efniviður í skapandi framleiðslu.

Virðulegi forseti. Leyfilegt er að selja vöru eða þjónustu fyrir 200.600 kr. án þess að greiða af slíku virðisaukaskatt. Sú undanþága kemur þeim helst til góða sem vinna að handverki sér til afþreyingar. Konur eru meiri hluti þeirra sem eru að þróa handverk og jafnvel smáiðnað. Listhandverk og handverk sem grundvallast á okkar menningu, munir sem ekki er hægt að fjöldaframleiða, er oft aukabúgrein í sveitum landsins. Þar er verið að nýta hráefni sem áður var fleygt. En sveitafólki nýtist undanþáguákvæðið upp á 200.600 kr. alls ekki. Hjónin teljast nefnilega bæði ábúendur, líka þar sem búið skilar takmörkuðum tekjum. Framleiðslan er virðisaukaskattskyld og þar með líka framleiðsla handverksmuna sem unnin er til sveita. Undanþágan upp á 200.600 kr. kemur því t.d. sveitakonum ekki til góða. Þetta er mjög íþyngjandi því þessa fallegu muni er ekki hægt að verðleggja sem skyldi og öllum ljóst sem skoða að tímakaupið verður afar rýrt auk þess sem mikið þróunarstarf liggur oft að baki hverjum framleiddum hlut.

Virðulegi forseti. Ég beini þeirri spurningu til fjmrh. hvort það sé rétt að höggmyndir og myndverk séu undanþegin virðisaukaskatti. Mér er sagt að í Noregi sé allt sem hægt er að hengja upp á vegg túlkað sem list og þar með undanþegið virðisaukaskatti. Ég bendi á í sambandi við þessa fyrirspurn að í fyrra var í lögunum um atvinnuleysistryggingar opnað fyrir atvinnuleysisbætur til sveitafólks í þeim tilvikum að búið ber tekjulega aðeins einn og það kom mjög vel í ljós við umfjöllun þess frv. að lagaákvæðið væri ansi gagnslaust fyrir marga vegna fjarlægðar frá byggð. Hér er ég að beina sjónum að úrræði í atvinnuleysi, úrræði sem er gjaldeyrissköpun, landkynning og umhverfisþáttur.

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. fjmrh. sem hér kemur í ræðustól í fyrsta sinn í sínu nýja embætti, er hvort ríkisstjórnin hyggist fella niður virðisaukaskatt af þessum munum eða hvort ríkisstjórnin áformi sérstakan annan stuðning við handverksfólk.