Álagning fjármagnstekjuskatts

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:59:09 (6173)

1998-05-04 13:59:09# 122. lþ. 116.17 fundur 698. mál: #A álagning fjármagnstekjuskatts# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi ÁE
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:59]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. svarið. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef átt þess kost að skiptast við hann á orðum, þ.e. sem fjmrh., og vonandi getur orðið framhald á því. Ég vænti þess þó að í framtíðinni verði svörin aðeins ítarlegri og betri en þau sem ég fékk við þessari fyrirspurn. Hæstv. ráðherra vísaði til þess að verið væri að vinna eftir lögum. Það er mér ljóst. Mér er líka ljóst að það er ódýrara að vera með einn gjalddaga en fleiri.

Meginatriðið í mínum málflutningi er hvort ráðherra finnist það vera eðlilegt að vörslufé sé ávaxtað eins og ég lýsti, að menn geti legið með vörslufé ríkissjóðs í marga marga mánuði. Hæstv. fjmrh. er vinur ríkissjóðs eins og við fleiri og það er fyrst og fremst þetta sem mér finnst óeðlilegt. Upphæðirnir eru ekki mjög miklar í þessu sambandi, einfaldlega vegna þess að fjármagnstekjuskatturinn skilar ekki nema um það bil milljarði á þessu ári. Það er þó ekki vitað enn þá. Við í stjórnarandstöðunni vorum mjög á móti þessari útfærslu en látum það nú vera. Mér finnst meginatriðið að það er óeðlilegt að bankar og fyrirtæki liggi með vörslufé ríkissjóðs til ávöxtunar. Það skiptir engu máli þó um lágar upphæðir sé að ræða. Það væri strax til bóta ef settir væru inn t.d. tveir gjalddagar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann mundi beita sér fyrir því, þegar þeirri greiningu er lokið og ef hún gæfi tilefni til þess, að hafa t.d. tvo gjalddaga t.d. 15. janúar og 15. júní. Það væri ekkert óeðlilegt við að gera slíkt og ég fagna því að ráðherra hyggist ætla að sundurgreina nokkuð þennan tekjupóst.

Meginatriðið sem ég vil knýja á um gagnvart ráðherra er hvort hann er reiðubúinn til að stuðla að tveimur gjalddögum á fjármagnstekjuskatti og hvort honum finnist þetta eðlileg málsmeðferð, að menn geti legið með fé sem þeir eru búnir að innheimta fyrir ríkissjóð upp undir og jafnvel meira en hálft ár. Það er ekki hægt að gera með neitt annað innheimtufé á vegum ríkisins. Þvert á móti er lögð á það mikil áhersla, með réttu eins og ég nefndi, að menn skili þessum fjármunum fljótt, vel og örugglega, innan eins eða tveggja mánaða. Af hverju á ekki að gilda það sama um fjármagnstekjuskattinn?