Jöfnun flutningskostnaðar á sláturfé

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 14:03:50 (6175)

1998-05-04 14:03:50# 122. lþ. 116.18 fundur 684. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sláturfé# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[14:03]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Stór þáttur í starfi löggjafarvaldsins er að tryggja jafnræði landsmanna og setja leikreglur sem eru glöggar, skýrar og gagnsæjar þannig að hver maður geti séð að allir séu jafnir fyrir lögum og lögin eigi við alla jafnt, það sé með öðrum orðum ekki vitlaust gefið. Oft hefur lagasetning í landbúnaði verið talin flókin. Á undanförnum árum hefur hún þó vissulega verið að skýrast mjög og færast frá því að vera mjög sértæk í það að vera almenn löggjöf þótt vissulega sé ýmislegt óunnið í lagarammanum varðandi landbúnað á Íslandi.

Sú fyrirspurn sem ég ber hér fram fjallar um meinta mismunun vegna flutningskostnaðar bænda á sláturfé. Ég vil taka dæmi til að skýra málið, raunverulegt dæmi. Bóndi á Vestfjörðum slátraði fé sínu hjá sláturhúsi kaupfélagsins á Hvammstanga og fékk 400 kr. flutningsstyrk fyrir hvert lamb. Annar bóndi á 0,7-reglunni fór með sitt sláturfé til sláturhúss Ferskra afurða, einnig á Hvammstanga. Hann fékk 7 kr. og 90 aura á lambið. Þarna eru tveir aðilar sem fara jafnlanga leið. Annar fær í flutningsstyrk tæpar 8 kr. fyrir lambið en hinn 400 kr. Þetta getur náttúrlega ekki gengið og hygg ég að allir hljóti að sjá það.

Bóndinn sem fær 400 kr. á lambið fær flutningsstyrkinn til þess að flytja útflutningskjötið í sláturhús sem hefur svonefnt ESB-leyfi. En styrkurinn nær hins vegar yfir allan flutninginn, líka það sem fer á innanlandsmarkaðinn og er miklu stærri hluti af magninu. Árið 1996 voru það 19% en 1997 13%. Þetta hefur vissulega skekkt samkeppnisstöðu sláturleyfishafa á innanlandsmarkaðnum. ESB-húsin hafa haft yfirburðastöðu.

Sláturleyfishafar hafa ályktað gegn þessari mismunun og í frv. til breytinga á búvörulögum sem væntanlega verður að lögum nú í vor, á næstu dögum jafnvel, er kveðið á um að við kaup á kindakjöti frá framleiðendum skuli tilgreina hvort kjötið fer á innanlandsmarkað eða til útflutnings. Því spyr ég: Verður breytt reglum á grundvelli nýrra laga þannig að sláturleyfishöfum sé ekki mismunað eins og gert hefur verið undanfarin ár?