Jöfnun flutningskostnaðar á sláturfé

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 14:12:41 (6177)

1998-05-04 14:12:41# 122. lþ. 116.18 fundur 684. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sláturfé# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[14:12]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svörin og árétta að vissulega er þessi frumskógur aðeins að breytast í það að vera greiðfærari en var, þ.e. að hægt sé að skilja lagarammann og umhverfi landbúnaðarins eins og hann er settur af löggjafarvaldi og útfærður af framkvæmdarvaldi. Svörin þakka ég og líka það að hæstv. ráðherra segir að ástæða sé til að skoða þessi mál frekar og útilokar ekki að endurskoðun eigi sér stað á þessum meinta mismun.

Það er mikilvægt að fá svör við þessu því það varðar framtíðarskipan landbúnaðarmálanna. Er t.d. ástæða til að öll sláturhús leggi í kostnað til að uppfylla skilyrði Evrópusambandsins? Full ástæða er til að spyrja að því vegna þess að ESB-húsin njóta sérstakrar náðar á við hin. Ég hygg að mikilvægt sé að markaðsaðstæður ráði en þær séu ekki skertar með sértækum lögum og reglum. Slíkar aðgerðir í landbúnaði orsökuðu kjötfjöll og smjörfjöll fyrr á tíð og þá voru það löggjafarvald og framkvæmdarvald, bæði stjórnvöld og samtök bænda, sem bjuggu til þetta vandamál. Við þurfum að hverfa frá slíkum ráðum og úrræðum í hvaða mynd sem slíkt birtist. Eðlilegast er að lofa greininni að spjara sig sjálfri án afskipta nema með almennum og rúmum reglum og það er að gerast, t.d. í því að heildsöluverðlagning á kindakjöti fellur niður í haust og þar með skráð verð til bænda. Gefinn verður út viðmiðunargrundvöllur, en hann verður ekki bindandi verðlagning, hvorki fyrir bændur né sláturleyfishafa. Ég þakka fyrir svörin.