Framhald þingstarfa og þingfrestun

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 16:30:10 (6195)

1998-05-04 16:30:10# 122. lþ. 117.94 fundur 343#B framhald þingstarfa og þingfrestun# (um fundarstjórn), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 122. lþ.

[16:30]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er réttur, lýðræðislegur og þingræðislegur, þingmeirihlutans að leiða mál til lykta í þinginu eins og það er réttur þingminnihlutans á hverjum tíma að áskilja sér rétt til mikillar og góðrar umræðu um viðkomandi mál. Við stöndum frammi fyrir þessum tveimur þáttum og menn eru að reyna að uppfylla þarfir hvors tveggja, þingmeirihlutans og þingminnihlutans. Þingmeirihlutans um að koma málum fram og þingminnihlutans um að fá um þau mál sæmilegar umræður. Það gera menn þá með því að lengja þann tíma sem til ráðstöfunar er, bæði að fjölga dögum og lengja umræðutímann og vonast og vænta þess að það megi duga til þess að umdeild mál nái fram að ganga. Það er enginn munur á umdeildum málum og óumdeildum, að þingmeirihlutinn á hverjum tíma hefur sama rétt til þess að láta á þingviljann reyna. Það er ekki eðlilegt til lengdar að koma í veg fyrir að á þingmeirihlutann sé látið reyna.

Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir sagði áðan að stjórnarandstaðan hefði vald til að tefja mál, eins og hún orðaði það. Ég er ekki alveg sammála því að stjórnarandstaðan hafi í raun vald til að tefja það, a.m.k. úr hömlu, að það reyni á þingvilja. Hingað erum við kosin, auðvitað til umræðna, en að lokum til þess að viljinn sem þjóðin skilaði inn á þing fái að njóta sín og það er verið að brjóta gegn þessari þingræðis- og lýðræðisreglu ef menn ætla að koma í veg fyrir það. (ÖJ: Stendur sá vilji nú í ræðustól?) Það er vilji þingsins. Ég þarf ekki að stafa það ofan í þingmenn. Það er vilji hvers og eins þingmanna. En þingmeirihlutinn hlýtur að fá að láta á þann vilja reyna í atkvæðagreiðslu, tapa þeirri atkvæðagreiðslu eða vinna hana. Það er nú ekki flóknara en það.

Á sama hátt hefur stjórnarandstaðan auðvitað leyfi til þess og rétt og skyldur að láta reyna á sína stjórnarandstöðu, koma sínum sjónarmiðum ítarlega fram og að því er ekki fundið. Að því hefur ekki verið fundið af hálfu stjórnarsinna.

Menn þekkja þau umdeildu frv. sem hér hafa verið rædd. Það er vilji stjórnarinnar og þingmeirihlutans að þau mál verði afgreidd og þau verða afgreidd. Þannig er það og síðan þurfa menn að átta sig á því hvað það tekur langan tíma.