Framhald þingstarfa og þingfrestun

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 16:33:06 (6196)

1998-05-04 16:33:06# 122. lþ. 117.94 fundur 343#B framhald þingstarfa og þingfrestun# (um fundarstjórn), Flm. SighB
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 122. lþ.

[16:33]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ef miðað er við vilja þingmeirihlutans til að afgreiða mál eins og hæstv. forsrh. ræddi um, þá liggur það fyrir nú, örfáum dögum áður en þing átti að hefja sumarleyfi að tillögu hæstv. forsrh. sjálfs, að þingmeirihlutinn vill afgreiða yfir sjö tugi mála. Þegar spurst er fyrir um hvort hægt sé að ná einhverju samkomulagi um hvernig standa eigi að þingstörfum frammi fyrir þessari staðreynd, þá fást engin svör önnur en þau að þingmeirihlutinn ætlar að ná fram vilja sínum og vilji þessa þingmeirihluta er að afgreiða yfir sjötíu mál á þeim tíma sem eftir er. Hæstv. forsrh. hlýtur að gera sér grein fyrir því eins og allir aðrir þingmenn að jafnvel þótt ekkert stórágreiningsefni væri í þessum hópi mála, þótt ekkert alvarlegt ágreiningsefni væri í hópi þessara 70 þingmála, þá mundi engu að síður ekki vinnast tími til þess að afgreiða þau öll fyrir sumarhlé. En af þessum 70 þingmálum sem þingmeirihlutinn vill láta afgreiða eru a.m.k. tíu, jafnvel 11, sem eru mjög stór ágreiningsmál í þinginu.

Það var lengst af venjan á Alþingi þegar fór að halla vetri, að þá lagði ríkisstjórn fram lista yfir þau mál sem hún óskaði sérstaklega eftir að yrðu afgreidd og síðan var sest yfir það í þinginu og reynt að ná samkomulagi um að vinna þingsins gæti farið eðlilega fram og þau mál næðu afgreiðslu sem samkomulag gæti orðið um og var þá fullt tillit tekið til vilja þingmeirihlutans. Það var ekkert verið að níðast á þingmeirihlutanum í þeim efnum. En ekkert slíkt liggur fyrir nú. Það eina sem liggur fyrir er yfirlýsing hæstv. forsrh.: Þessi 70 mál viljum við afgreiða. Punktur.

Ég fullyrði, virðulegi forseti, að slík framkoma verður ekki til að greiða fyrir störfum á Alþingi Íslendinga og það er miklu nær fyrir hæstv. ríkisstjórn að reyna að ganga til samkomulags um afgreiðslu mála við þingmenn og auðvitað verður fullt tillit tekið til vilja, bæði meiri hluta og minni hluta í þeim efnum og menn lenda málunum í samkomulagi eins og vant er. En því lengur sem þær viðræður dragast, (Forseti hringir.) þeim mun erfiðara verður að ná samkomulagi og þeim mun minna virðulegt yfirbragð verður yfir umræðum í þessari stofnun. Nema hæstv. forsrh. sé alveg fallinn frá því sem var tilgangur hans (Forseti hringir.) með að hraða störfum þingsins, að frambjóðendur og aðilar næðu vopnum sínum fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.