Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 05. maí 1998, kl. 11:38:39 (6201)

1998-05-05 11:38:39# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, Frsm. minni hluta RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[11:38]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. alþingismanni, þjóðin hefur kosið þingmenn á Alþingi. Og hópur þeirra hefur ákveðið að mynda ríkisstjórn og það gerist hverju sinni. Að þessu sinni var hópurinn nokkuð stór, meirihlutavaldið sterkt. Það er alveg ljóst og blandast engum hugur um það að í fyllingu tímans mun sá meiri hluti með atkvæðagreiðslu sinni ráða þessu máli eins og öðrum til lykta.

Það er hins vegar þannig að sum mál eru svo stór í eðli sínu og mönnum liggur svo mikið á hjarta í umræðunni um þau að það er eðlilegast hlutur í heimi að um þau fari fram ítarlega umræða. Ég er þeirrar skoðunar að 20--30 tímar í umræðu um svo stórt mál, sem fyrst nú er verulega að ná eyrum þjóðarinnar þannig að hún átti sig á hvað er að fara fram hér á Alþingi, sé sannarlega ekki langur tími. Mér finnst ekkert ótrúlegt að 20 tíma umræða eigi eftir að fara fram við 3. umr. Það fer bara eftir því hvað alþingismönnum liggur á hjarta. Þannig er það.

En það er hinn mikli meiri hluti sem ræður með sinni atkvæðagreiðslu í fyllingu tímans og það gera sér allir grein fyrir því að ekki þýðir að deila við valdið.