Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 05. maí 1998, kl. 16:25:17 (6220)

1998-05-05 16:25:17# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[16:25]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla hvorki að hafa stóryrði né fúkyrði um þessi mál. Ég tel að sáttaleið felist í því að forsetaembættið ræði við hv. formenn þingflokka sem aðild eiga að Alþingi um stöðu málsins og ég sé að það mundi falla fleirum en mér vel í geð. Ég fullyrði að það eru ekki 40 þingmenn samstæðir í þessu máli. Ég fullyrði það og ég hygg að það séu þá 40 mínus eins og það séu 23 plús sem eru gegn frv.

Það sem við erum að ræða um, hv. þm. Pétur Blöndal, eru auðlindir Íslands. Við erum að velta því fyrir okkur hvort við sjáum nægjanlega fram í tímann hvert mat manna verður. Það er þess vegna sem ég tel að það eigi að gefa sér betri tíma. Það er engin óhæfa og það er ekkert sem gerist við að fresta afgreiðslu málsins, nákvæmlega ekki neitt. Þess vegna bið ég um að það sé gert og tekið til við ýmis önnur mál sem er ríkjandi sátt um, setja til hliðar þau mál sem er ósátt um eða reyna að ná um það samningum hvernig við klárum þau og tekið sé til við að klára það sem sátt er um.

Ég hef bent á það í ræðum mínum að mat manna á því hver séu auðæfi Íslands er stöðugt að breytast. Það er stöðugt að breytast og ég veit að á næstu fimm árum verður gjörbreytt viðhorf Íslendinga til þess hver eru verðmætin í miðhálendi Íslands sem eru og eiga að vera sameign allrar þjóðarinnar. Það er þess vegna sem ég, herra forseti, er að biðja um skoðun og frestun á málinu.