Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 05. maí 1998, kl. 22:00:52 (6226)

1998-05-05 22:00:52# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[22:00]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir það að hv. þm. hafi sýnt þeirri sem hér stendur þá virðingu að hlusta á málflutning minn, mér skildist að það væri svona einn til tveir tímar af fjögurra og hálfs tíma ræðu, ég þakka fyrir það. Það er meira en aðrir hafa gert og ég þakka þingmanninum kærlega fyrir það. En að ætlast til þess, herra forseti, að ég á einni mínútu dragi saman einhvern kjarna í þessu stóra máli ...

(Forseti (ÓE): Tvær mínútur.)

Mér er alveg sama þó að forseti gæfi mér fimm mínútur til þess, þá er bara útilokað að gera það. En auðvitað veit hv. þm. kjarnann í þessu máli þó að hann vilji ekki viðurkenna það. Hann hefur margoft komið fram.

Hvað erum við að gera? Við erum að færa stjórnsýsluna, hagnýtinguna á miðhálendinu í hendur örfárra sveitarfélaga, 5--6% íbúa þjóðarinnar þar sem 95% þjóðarinnar eiga ekkert að hafa með ákvörðunar- eða skipulagsréttinn að gera. Það er boðið upp á eitthvert samráð og óljósan umsagnarrétt og 95% þjóðarinnar láta ekki bjóða sér það. Við erum að tala um stórmál inn í framtíðina um hvernig við viljum skipuleggja okkar náttúruperlu sem er miðhálendið sem skiptir alla þjóðina máli hvernig frá er gengið. Hv. þm. þarf ekki að undrast það þó við þurfum að ræða það í mjög ítarlegu máli, alla þætti þess og áhrif þess, herra forseti. Mikið af málflutningnum hefur einmitt farið í að ræða áhrif þess ef farin verður sú leið að þröngva í gegnum þing og þjóð þessu frv. eins og hv. meiri hluti vill gera.

Ég held að það væri stórslys, herra forseti, ef við gerðum það og því stórslysi erum við að reyna að forða.