Ákvörðun um þingfrestun

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 10:34:21 (6259)

1998-05-07 10:34:21# 122. lþ. 120.92 fundur 352#B ákvörðun um þingfrestun# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[10:34]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það er orðið mjög mikið álitamál hver stjórni Alþingi. Þegar við heyrum í fréttum, eins og í gærkvöldi, nákvæma lýsingu hæstv. forsrh. á því hvernig haga eigi þingstörfum, þá spyr ég sjálfan mig: Hvert er hlutverk forseta, forsn. og formanna þingflokka orðið í þessu sambandi? Hæstv. forsrh. segir að það eigi að tala hér, eins og ég skildi það, fram í kosningavikuna, síðan gefa smáhlé og hittast á mánudeginum eftir kosningar og halda áfram.

Mér finnst það vera niðurlæging gagnvart Alþingi að hæstv. forsrh. tali með þessum hætti. Mér finnst að hann niðurlægja hæstv. forseta. Forseti á að kveða úr um hvernig gengið er að störfum að höfðu samráði, ef hann kýs svo. Venjan er sú að málin séu rædd í forsn. eða með formönnum þingflokka.

Öllum er ljóst að málin eru vandmeðfarin í augnablikinu. Í gangi er mjög ítarleg umræða. Það er ekkert nýtt á hinu háa Alþingi, að menn ræði ítarlega mál þegar komið er undir þinglok. Það er hins vegar nýtt að ekki skuli vera sest niður til að ræða málin. Það er einnig nýtt að hæstv. forsrh. gefi út yfirlýsingar um það hvernig haga eigi störfum þingsins. Mér finnst þetta vanvirða við Alþingi.

Hæstv. forsrh. má hafa sínar skoðanir um störf þingsins en ég hef hingað til treyst hæstv. forseta til að sjá um verkstjórnina og kveða úr um það hver sé líkleg framvinda mála. Ég treysti forseta ágætlega til þess og fyndist rétt að hann ætti fund með þingflokksformönnum, sem ekki hefur verið haldinn um þessi mál í nokkurn tíma, og einnig með forsn. Það er ekki hægt, herra forseti, að framkvæmdarvaldið komi fram eins og gerðist í fréttatímum í gærkvöldi og lýsti hvernig hið háa Alþingi ætti að starfa á næstunni.