Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 17:36:58 (6369)

1998-05-08 17:36:58# 122. lþ. 121.3 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv. 38/1998, Frsm. 2. minni hluta SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[17:36]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti 2. minni hluta sjútvn. en ásamt mér skrifar hv. þm. Lúðvík Bergvinsson undir það álit. Við erum að fjalla um frv. til laga um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og eins og fram kom hjá hv. fyrri ræðumanni, Steingrími J. Sigfússyni, hafa staðið nokkrar deilur um þetta frv.

Staðið hafa deilur um þau ákvæði sem þar eru og víkja frá því sem hagsmunaaðilar, stjórnmálamenn eða þjóðin sjálf höfðu kannski hugsað sér að hægt væri að hafa um þessi mál. Það er út af fyrir sig, herra forseti, eðlilegt að bæði beinir hagsmunaaðilar, sem væru þá útgerðaraðilar fyrst og fremst, og óbeinir hagsmunaaðilar eða þjóðin og svo stjórnmálamennirnir sem um eiga að véla, takist á um mál eins og þetta því hér liggur fyrir frv. um skiptingu gæða rétt eins og fjöldamörg þeirra frv. sem koma frá hæstv. sjútvrh. og fjalla um veiðistjórn á Íslandi. Og að þessu sinni hvað varðar síldina erum við ekki bara að fjalla um þá skiptingu gæðanna að menn fái ákveðið leyfi til að veiða heldur er líka um að ræða tiltekna framsalsheimild, þ.e. í frv. er ekki bara gert ráð fyrir leyfi til veiða skipanna heldur hafa menn einnig leyfi, ef þetta frv. verður að lögum, til að framselja eða selja hluta af þeim veiðileyfum sem þeir fá og það þarf engan að undra þótt um það skapist átök.

Hér hefur nokkuð verið rætt um þau átök sem hafa staðið um fiskveiðistjórnina og við þekkjum mætavel ástæðu þeirra átaka. Menn telja að skiptingin sé í mörgum tilfellum afar ranglát og ranglátast af öllu telur þó meiri hluti þjóðarinnar að afhending veiðileyfanna skuli vera ókeypis en síðan skuli þeir sem veiðileyfin fá hafa leyfi til að selja þau. Það þarf því engan að undra þótt deilur standi um það frv. sem hér liggur fyrir af hálfu hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnarinnar.

Eins og fram hefur komið leggur meiri hluti sjútvn. ekki til neinar breytingar á þessu frv. Það á að afgreiða hér miðað við það sem við höfum fengið að skilja sem sitjum í hv. nefnd nákvæmlega eins og það liggur fyrir með óbreyttum texta, jafnvel kommusetningu. Ég held því að rétt sé að gera ráð fyrir því strax, herra forseti, og ég mun gera það í minni ræðu, að frv. verði samþykkt hér. Ríkisstjórnin mun þá beita þeim meiri hluta sem hún hefur svo mjög harmað undanfarna daga að geta ekki beitt og talið sig vera að vinna fyrir hönd meiri hluta þjóðarinnar. Ég er hins vegar nokkuð viss um að þegar þetta frv. á í hlut mundi þjóðin vilja sjá hér annan hátt á.

Ég ætla, herra forseti, eins og ég sagði að mæla fyrir því nál. sem hér liggur fyrir en þar segir að jafnaðarmenn hafi lagt til, bæði á þessu þingi, og er ég þar að vísa í 146. mál, og einnig á síðasta þingi, 121. þingi, að veiðiheimildir úr norsk-íslenska síldarstofninum yrðu boðnar út og gerðar yrðu viðeigandi breytingar á lögunum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands til að það væri unnt.

Ég ber ekki sérstaklega mikla virðingu fyrir þeim lögum, ekki umfram önnur lög og þeim er að sjálfsögðu hægt að breyta ef menn telja það þjóna ákveðnum tilgangi. Það höfum við talið að væri rétt að gera, svo hægt væri að bjóða út veiðiheimildirnar í norsk-íslenska síldarstofninum og að sjálfsögðu er eðlilegt að breyta þeim lögum, hversu gömul eða ný sem þau eru, ef mönnum sýnist að fyrirkomulag hlutanna geti verið betra með þeim hætti. Það er skoðun jafnaðarmanna að með þeirri skipan mála að bjóða út veiðiheimildirnar væri líklegast að markmið fiskveiðistjórnarinnar um hagkvæmar veiðar og réttláta úthlutun veiðileyfa næðist fram. En það er kannski nokkuð sem menn missa stundum sjónar á og það er spurningin um hagkvæmar veiðar, vegna þess að þegar um er að ræða sameiginlega auðlind eins og fiskimiðin við Ísland og fiskstofnarnir eru samkvæmt lögum er það auðvitað skylda stjórnmálamanna að sjá svo um með því sem þeir eru að gera með ákvörðunum sínum að veiðarnar, nýting auðlindarinnar sé hverju sinni eins hagkvæm eins og nokkur kostur er.

Það hefur verið farið yfir það hér, herra forseti, að veiðar íslenskra fiskiskipa úr norsk-íslenska síldarstofninum hafa ekki verið stundaðar svo nokkru nemi í um 30 ár. Á þessu hafa þó orðið breytingar á allra síðustu árum og norsk-íslenski síldarstofninn verið í nokkurri framför eftir langvarandi lægð. Og eins og margoft hefur komið fram í þessari umræðu er þess vænst að hann muni brátt ganga á gamlar slóðir.

Með samningi um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum milli síldveiðiþjóðanna við norðanvert Atlantshaf tryggðu Íslendingar sér veiðiréttindi úr stofninum á hafsvæðum utan íslensku fiskveiðilögsögunnar og á þessari vertíð sem nú er hafin munu 202 þús. lestir koma í hlut okkar Íslendinga.

Þeirri vertíð sem nú er hafin sagði ég, og ég vil taka undir þau orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þar sem hann lýsir óánægju í rauninni með vinnubrögðin við þetta frv. Það hefur ekkert með innihald þess að gera, heldur bara þau vinnubrögð að koma með málið svo seint inn í þingið að það er enn óafgreitt eftir að vertíðin er hafin.

En vegna þess hve langur tími er liðinn frá því veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum voru stundaðar af íslenskum fiskiskipum er ekki á langri veiðireynslu að byggja hjá þeim flota sem hyggst stunda þessar veiðar. Síldveiðiskipin sem við þekktum frá því í gamla daga sem vorum í síld, þau sem stunduðu veiðarnar fyrir 30 árum eru flest horfin úr íslenska flotanum og útgerðir margra þeirra hættar störfum. Íslendingar standa því frammi fyrir aðstæðum sem eru ólíkar því sem þeir hafa vanist við veiðar úr öðrum fiskstofnum á Íslandsmiðum og utan þeirra þar sem oftast var byggt á margra ára veiðireynslu skipa sem voru í útgerð þegar stjórnkerfisleiðir voru valdar.

Með frv. okkar jafnaðarmanna hefur sú stefna verið mótuð varðandi veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum að ákveðið verði í lögum að í stað ókeypis úthlutunar aflakvóta til tiltekinna veiðiskipa verði veiðiheimildir seldar þeim sem hug hafa á að stunda veiðarnar. Í umræðum um veiðileyfagjald eða sölu aflaheimilda hafa komið fram ýmsar tillögur og hugmyndir um útfærslu en með veiðileyfagjaldi er átt við gjaldtöku í tengslum við úthlutun veiðileyfa.

[17:45]

Í frv. okkar jafnaðarmanna er sú leið valin hvað varðar sölu veiðileyfa úr norsk-íslenska síldarstofninum að selja veiðileyfi í almennu útboði þar sem útgerðir allra íslenskra skipa sem stundað geta síldveiðar hafa sama rétt til þátttöku. Þó þessi aðferð sé valin í frv. okkar ber ekki að hafa það til marks um að flutningsmenn séu þeirrar skoðunar að hana beri að velja öðrum fremur hvað varðar framkvæmd veiðileyfagjalds í öðrum fiskveiðum. Þar koma aðrar aðferðir ekki síður til greina.

En með útboði á aflaheimildum eru meiri líkur á að manneldismarkmið náist í síldveiðum vegna þess að séu veiðiheimildir fengnar gegn gjaldi í stað ókeypis aðgangs verður ríkari nauðsyn til þess að verðmæti aflans verði sem allra mest. Munu útgerðarmenn þá fremur huga að því að skipuleggja veiðar sínar þannig að í stað þess að ná sem mestu magni án tillits til verðmætis þá verði verðmætishugsunin meira afgerandi.

Á undanförnum árum, herra forseti, hafa ýmsir aðilar, þar á meðal ráðherrar í núverandi ríkisstjórn, lýst þeirri skoðun sinni að útboð veiðiheimilda úr norsk-íslenska síldarstofninum komi vel til álita. Morgunblaðið rifjar það upp í leiðara sl. sunnudag. Leiðarahöfundur segir, með leyfi forseta:

,,Á undanförnum mánuðum hafa nokkrir ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna ítrekað lýst þeirri skoðun, að vel gæti komið til greina, að selja réttinn til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og fært fram þau rök fyrir því, að öðru máli gegndi um þennan stofn en fiskstofnana á Íslandsmiðum. Morgunblaðið hefur tekið þessi ummæli forustumanna stjórnarflokkanna alvarlega og trúað því að hugur fylgdi máli.

Nú er bersýnilegt, að stjórnarflokkarnir hyggjast ekki fylgja þessum hugmyndum fram heldur haga úthlutun veiðiréttar með öðrum hætti. Í ljósi fyrri yfirlýsingu ráðherra og þingmanna er ekki til of mikils mælst, að þeir geri efnislega grein fyrir því, hvers vegna þeir hafa horfið frá fyrri hugmyndum í þessum efnum.``

Svo mörg voru þau orð leiðarahöfundar Morgunblaðsins.

Herra forseti. Ég ætla að gefnu þessu tilefni að vitna í það sem áður hefur komið fram um þessi mál. Ég held að rétt sé að halda því til haga hvað menn hafa verið að segja.

Í haust sagði Kristján Ragnarsson, formaður LÍÚ, í Morgunblaðinu þegar honum bárust hugmyndir um gjaldtöku vegna síldveiða, að þá mundi síldin til heiðurs þeim frekar synda í sjónum. Ýmsum þótti nú býsna bratt að formaður LÍÚ skyldi geta á þennan hátt mælt fyrir munn allra útgerðarmanna og sagt að ef þeir þyrftu að greiða ríkisvaldinu eitthvað fyrir aflaheimildir að þá mundu þeir frekar láta síldina synda hjá. Kannski hefur þetta hrætt hæstv. ráðherra sem áður höfðu velt vöngum yfir því og jafnvel látið líklega með það að þeir mundu styðja hugmyndir um uppboð veiðileyfa í norsk-íslenska síldarstofninum. Hins vegar verður fróðlegt að sjá hvort íslenskir útgerðarmenn skirrast við að kaupa veiðileyfi hver af öðrum, en eins og ég gat um áðan eru heimildir til þess í þessu frv.

Ég hef ekki rekist á það í þeim ummælum sem eftir forustumanni þeirra hafa verið höfð um þetta mál að hann legðist sérstaklega gegn því. En það er ekki sama, eins og margoft hefur komið í ljós, hverjum er borgað fyrir veiðileyfin.

Morgunblaðinu segist svo frá, með leyfi forseta:

,,Kristján Ragnarsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, vísar algerlega á bug hugmyndum um sérstaka gjaldtöku vegna veiða íslenskra fiskiskipa úr norsk-íslenska síldarstofninum og segir að útvegsmenn muni aldrei sætta sig við slíkar hugmyndir. Bæði Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra og Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hafa lýst því yfir að þeir telji uppboð eða gjaldtöku vegna veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum koma til greina.``

Þetta hefur Morgunblaðið eftir þeim eða tekur saman í haust. Ég hef ekki orðið vör við að þessu væri mótmælt þannig að ég geri ráð fyrir að þetta standi.

En í þessari sömu grein kemur jafnframt fram, og er þá verið að tala við forustumann þeirra útvegsmanna, að hann vísar þessum hugmyndum til föðurhúsanna og telur með ólíkindum að þær skuli koma frá þeim aðilum sem jafnglögglega eiga að þekkja til og þeir. Og síðan kemur hér það sem vakti sérstaka athygli mína, með leyfi forseta:

,,Þeir virðast hafa gleymt um hvað stjórnarflokkarnir sömdu við hagsmunaaðila í fyrra um hvernig þessu skuli ráðstafað miðað við þau lög sem sett voru í fyrra.``

Svo mörg voru þau orð.

Herra forseti. Hér var getið um tvo hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni. En þeim hefur nú fjölgað sem hafa lýst yfir áhuga sínum á að reyna þá leið að bjóða upp veiðileyfin í norsk-íslensku síldinni vegna þess að nú er hv. þm. Geir H. Haarde orðinn fjmrh. Hann sagði í þessu sama Morgunblaði frá því í haust --- og er þá að vísa til þess sem gerðist í úthafsveiðinefndinni sem undirbjó það frv. sem hér varð síðan að lögum, með leyfi forseta:

,,,,Ég taldi þá`` --- sagði núv. fjmrh. --- ,,og tel reyndar enn að uppboð sé skynsamleg leið þegar um er að ræða veiðistofn þar sem eru engar sjálfgefnar viðmiðanir að fara eftir varðandi úthlutun. Þessi ,,ólympíska`` aðferð við veiðarnar sem var viðhöfð í fyrra getur kallað á heilmikla sóun og er þess vegna ekki skynsamleg,`` sagði Geir enn fremur.

Hann sagðist telja að uppboð veiðiheimilda væri eðlileg úthlutunaraðferð þegar norsk-íslenski síldarstofninn væri annars vegar, en um það hefði ekki verið samstaða á sínum tíma þegar málið hefði verið til umfjöllunar.

Geir sagðist ekki hafa hugsað það nákvæmlega hvaða aðferð ætti að beita í slíku uppboði. Þar væri einungis um tæknilega útfærslu að ræða og kæmu ýmsar leiðir til greina.``

Læt ég þá lokið, herra forseti, tilvitnun í hæstv. ráðherra núv. ríkisstjórnar um þetta mál. Það var tæpast hægt að fjalla um málið öðruvísi en að vitna í orð þeirra hér um vegna þess að auðvitað skiptir það verulegu máli hvaða væntingar hæstv. ráðherrar gefa fólkinu í landinu um meðferð þessara mála. Ég er nokkuð viss um það að þegar þeir létu þessi orð falla á sínum tíma þá gerðu þeir það m.a. til að reyna að sætta fólkið í landinu frekar við þá fiskveiðistjórnun sem er reglan. Þeir hafa hins vegar fallið frá þessu og ég hlýt að taka undir með leiðarahöfundi Morgunblaðsins sem óskar eftir því að þeir geri grein fyrir því hvers vegna þeir hafa horfið frá fyrri hugmyndum í þessum efnum. Vegna þess að það er þó ekki nema satt og rétt að það frv. sem hér liggur fyrir til laga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum getur ekki talist svo merkilegt að menn hendi frá sér betri hugmyndum til þess að styðja það.

Annar minni hluti harmar að meiri hluti Alþingis sé ekki tilbúinn til að fallast á tillögu jafnaðarmanna um úthlutun veiðiheimilda með uppboði. Ég vil láta þess getið að tillagan var ekki afgreidd út úr hv. sjútvn. En við munum að sjálfsögðu endurflytja hana næsta haust í þeirri von að smám saman öðlist menn kjark til þess að fylgja eftir sannfæringu sinni á hinu háa Alþingi.

Sú niðurstaða sem birtist í frumvarpi sjávarútvegsráðherra er málamiðlun milli ríkisstjórnarflokkanna, málamiðlun milli þeirra sem ekki vilja að veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum ,,myndi grunn að fastri aflahlutdeild``, sbr. frægt nefndarálit meiri hluta sjávarútvegsnefndar við afgreiðslu frumvarps til laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, og þeirra sem vilja þegar fara að stýra veiðunum með úthlutun veiðiheimilda á grunni slíkrar reynslu, sbr. 5. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Niðurstaðan er bastarður sem hvorki mun uppfylla kröfur um hagkvæmar veiðar né réttláta úthlutun veiðiheimilda.

Nú geta menn alltaf deilt um hvað er réttlát úthlutun veiðiheimilda og menn geta velt því fyrir sér hvort sú veiðireynsla sem þegar er fengin réttlæti að þau skip sem hafa öðlast slíka reynslu skuli fá þann aðgang að 90% heimildanna sem þau eiga að fá samkvæmt þessu frv. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um mikla tilfærslu fjármuna miðað við það ef önnur leið hefði verið farin. Ég vil benda á að ef menn vilja staðreyna hvaða fjármuni hér er um að ræða þá gera þeir það auðvitað með því að bjóða upp veiðiheimildirnar og þá sjá menn hvaða fjármunir það eru sem verið er að færa á milli manna eða færa mönnum eftir atvikum, eða þá að menn geta átt aðgang að og keypt ef út í það er farið.

Í þessu nál. sem margoft hefur verið vitnað í, þ.e. nál. meiri hluta sjútvn. við frv. til laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands --- lög nr. 151/1996 --- segir, með leyfi forseta:

,,Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum verði á grundvelli leyfa til veiðanna á sambærilegum forsendum og verið hafa. Veiðireynsla úr þessum stofni myndi ekki grunn að fastri aflahlutdeild.``

Það er sem sé svo að á þessu hafa einhverjir hangið, þ.e. að veiðireynslan úr þessum stofni myndi ekki grunn að fastri aflahlutdeild. Ég get út af fyrir sig skilið það að þeir sem ekki vilja að slík veiðistjórn sé viðhöfð, hangi á þessari málsgrein. En ég velti því fyrir mér, og það væri fróðlegt að heyra það frá fulltrúum meiri hluta sjúvn., af hverju þeir hanga þá ekki jafnþétt á fyrri hluta greinarinar þar sem segir að veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum verði á grundvelli leyfa til veiðanna á sambærilegum forsendum og verið hafa, sem eru frjálsar veiðar. Mér sýnist að ef meiri hluti sjútvn. ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér út í gegn þá hljóti meiri hlutinn að fallast á þá brtt. sem hér liggur fyrir um frjálsar veiðar.

Það kemur fram, herra forseti, í nefndaráliti annars minni hluta að við munum ekki styðja þetta frv. ríkisstjórnarinnar, ekki styðja þennan bastarð sem er hvorki fugl né fiskur, en leggjum þess í stað til, sem eins konar málamiðlun þar sem okkar frv. liggur hér óafgreitt, að veiðarnar verði frjálsar enn um sinn, enda sé það næst besti kostur við veiðistjórn þegar aðstæður eru eins og nú varðandi norsk-íslenska síldarstofninn. Ég vil færa fram nokkur rök fyrir því, herra forseti, af hverju við teljum að það fari best á því að halda áfram frjálsum veiðum.

Við teljum að við þurfum að viðhafa kröftuga sókn í síldarstofninn. Við trúum því ekki jafnbláeygt og hæstv. utanrrh. að ekki skipti máli hvort við náum þeim heimildum sem okkur er úthlutað í samstarfi við aðrar þjóðir við norðanvert Atlantshaf. Við óttumst að ef það gerist ár eftir ár að við veiðum ekki í rauninni þær heimildir sem við fáum út úr þessum sameiginlega potti þá muni það a.m.k. ekki styrkja okkar samningsstöðu. Þess vegna sé mikilvægt að við reynum eftir mætti að stýra veiðunum þannig að menn sæki kröftuglega í norsk-íslenska síldarstofninn og við erum jafnframt á þeirri skoðun að sú veiðireynsla sem þannig fæst skerpi a.m.k. mat útgerðarmanna á þeim möguleikum til veiða sem eru úr þessum stofni, möguleikum til hagkvæmra veiða og að jafnframt átti menn sig þá betur á því hvað væri sanngjarnt og eðlilegt að greiða fyrir veiðileyfi úr slíkum stofni.

Ég held að mjög mikilvægt sé, herra forseti, að menn velti því aðeins fyrir sér hvernig staðið hefur verið að þessum málum. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti það í ítarlegu máli áðan hvernig reglum hefur verið breytt þó svo að í grófum dráttum megi segja að veiðin hafi verið frjáls á undanförnum árum.

[18:00]

Með þessu frv. er hins vegar um ákveðna reglu að ræða, þ.e. menn ákveða á þennan umdeilanlega hátt hvernig skuli farið í veiðarnar. Við munum sjá að þegar líður á vertíðina verður reglum breytt og kannski oftar en tvisvar vegna þess að auðvitað mun hæstv. sjútvrh. líta á það sem skyldu sína að breyta reglum til að auka möguleika okkar á að ná sem mestu úr þessum stofni. Ég er líka nokkuð viss um það, herra forseti, og vil spá því hér að á hausti komanda munum við sjá frv. til laga um breytingar á þessum lögum. Ég hef þegar boðað að við jafnaðarmenn munum endurflytja okkar frv. um breytingar á úthafsveiðilögunum sem heimila að menn selji veiðileyfi í norsk-íslenska síldarstofninn. En ég er nokkuð viss um að það verður ekki eina frv. um veiðar úr þessum stofni á hausti komanda vegna þess að mér segir svo hugur að reynslan af þessu fyrirkomulagi verði þannig að menn muni finna sig knúna til að endurskoða það sem hér liggur fyrir. Það er út af fyrir sig ekki óvanalegt. Við höfum á undanförnum árum tekið lögin um stjórn fiskveiða oft á hverjum vetri til umfjöllunar og það er hluti af því óstöðuga umhverfi sem menn hafa verið að tala um að íslenskur sjávarútvegur mætti búa við. Lagaumhverfið er óstöðugt. Það er verið að stoppa í göt meira og minna. En ég óttast, herra forseti, að jafnvel þótt menn telji sig nú vera að setja lög til einhverra ára og ætli þar með, væntanlega af góðum hug, að reyna að skapa tiltekið jafnvægi í þessum hlutum, muni það ekki takast.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð um frv. öllu fleiri. Afstaða okkar jafnaðarmann er kunn til þessara mála og við eigum ugglaust eftir að ræða hana oftar úr þessum stól áður en þessu þingi lýkur.