Undirritun Kyoto-bókunar

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 15:15:09 (6424)

1998-05-11 15:15:09# 122. lþ. 124.1 fundur 368#B undirritun Kyoto-bókunar# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[15:15]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ætli það sé ekki svo að fleiri ríki en Ísland þurfi að vinna að málum sínum en hafa samt haft fyrir því að setja fangamark sitt undir bókunina? Er það virkilega svo að íslensk stjórnvöld ætli að mæta til Buenos Aires fundarins án þess að hafa undirritað samninginn? Standa kannski ein með Bandaríkjum Norður-Ameríku? Er það vinnulagið? Er það aðferðin til að vinna traust á alþjóðavettvangi að standa þannig að málum?

Þetta er hreint með fádæmum, virðulegi forseti, og mun fyrr en varir skaða hagsmuni Íslands alþjóðlega ef þannig verður að verki staðið.