1998-05-15 00:38:04# 122. lþ. 127.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 122. lþ.

[24:38]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætlaði að leyfa mér að spyrja virðulegan forseta hvað er fyrirhugað með fundahald, hvort ekki er nóg að gert eins og þar stendur. Fundur hefur staðið linnulaust síðan hálfellefu í morgun og reyndar lengur því a.m.k. ein og líklega frekar þó tvær þingnefndir hófu störf klukkan átta. Miðað við hvíldartímaskipan þá sem upp hefur verið tekin hér, m.a. að evrópskum sið og staðfest á Íslandi, og ég veit að sá ráðherra sem hér á mál á dagskrá er mjög annt um að sé virt, hæstv. félmrh., sýnist mér að ekki sé fært að halda lengur áfram fundinum miðað við að hann eigi að hefjast aftur á svipuðum tíma í fyrramálið og fundir hafa hafist undanfarna daga, þ.e. um hálfellefu. Ef ég kann rétt að reikna veitir ekki af að hætta störfum nú og þó fyrr hefði verið ef menn eiga að ná lágmarkshvíld samkvæmt þeim reglum sem nú eru gengnar í gildi. Ég vil því leyfa mér að koma þessari ábendingu á framfæri við hæstv. forseta og vænti þess að forseti sjái að það er eðlilegast úr því sem komið er að fresta fundinum að svo stöddu.