Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 20:03:33 (6628)

1998-05-15 20:03:33# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[20:03]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Þeir sem áfram koma til með að starfa hjá Íbúðalánasjóði verða áfram ríkisstarfsmenn og kringumstæður þeirra verða ekkert líkar þeim sem fara til einkavæddra fyrirtækja og missa hinn góða vinnuveitanda, ríkið. Það verður auðvitað að skipta þessum vanda af félagslegum íbúðum. Það er engin önnur leið. Ríkið verður að taka þátt í því, það er ekki hægt að búast við því að sveitarfélögin geri það. Nú geri ég ráð fyrir að Stokkseyri flokkist ekki með þeim sveitarfélögum sem hv. 13. þm. Reykv. kallaði hundrað sinnum í gær ,,sveitarfélög sem hefðu staðið sig illa`` í félagslegum málum. Vandinn á Stokkseyri, jafnvel þótt hann sé nokkuð stór fyrir Stokkseyri, er smáræði hjá því sem ég þekki til sums staðar annars staðar. Ég hef dæmi um sveitarfélag sem er líklega búið að tapa eða er með bagga upp á 800 millj. fyrir félagslegt húsnæði. Það sveitarfélag kemst aldrei út úr því að greiða þann bagga eitt.

Það eru mörg atriði í ræðu hv. þm. sem ástæða væri til að fara yfir. Það er ekki rétt að nýja kerfið verði dýrara. Það er bara ekki rétt. Það er þvert á móti og ef við stjórnarsinnar hefðum grun um að þetta yrði dýrara hefðum við ekki farið með málið fram. Við sannfærðumst um það að þetta væri ódýrara og betra fyrirkomulag en við búum við í dag og mér finnst að það hafi komið ágætlega fram hjá hv. þm. að núverandi kerfi er gallað.