Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 20:13:39 (6633)

1998-05-15 20:13:39# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[20:13]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Viðhorf og niðurstaða hv. þm., stjórnarliða sem hugsa eins og hv. þm. Pétur Blöndal, skýrir ansi margt fyrir mér þegar búið er að finna út að það sé fyrst og fremst verðlagningu félagslega húsnæðiskerfisins að kenna, offramboði á félagslegu húsnæði hlýtur þá að vera, að markaðsverð hefur farið niður á landsbyggðinni, haldið því niðri. Ég er svo gáttuð og mér finnst þetta sýna svo mikla vanþekkingu á því sem er að gerast á landsbyggðinni vegna þess að markaðsverð helst í hendur við atvinnustig og það sem hefur fyrst og fremst lækkað og orðið til þess að markaðsverð íbúða á landsbyggðinni hefur lækkað er kvótakerfið, sú breyting sem hefur orðið á sjávarútvegi og sú breyting sem hefur orðið á landbúnaði. Þetta veit hv. þm. og það eru fráleit rökin og enn fráleitari þegar við hugsum til þess að þið eruð að segja hér, hv. þm., að þið ætlið að fara að bjóða fólki með lág laun gott húsnæði á sambærilegum kjörum og jafnvel betri. Hæstv. ráðherra sagði: Það mun verða betra fyrir láglaunamanninn að eignast húsnæði, þetta verður ódýrara og minni kostnaður. Hvað þá? Hvað þá? Hvað verður þá um markaðsverðið? Hvað verður þá um markaðsverðið ef þið eruð að fara niður? (Gripið fram í: Það er hliðarverkun.) Hvers lags rökleysa er þetta orðin hjá hv. þm.?