Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 16:10:15 (6673)

1998-05-16 16:10:15# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, GGuðbj (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[16:10]

Guðný Guðbjörnsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Uppákoman í þinginu núna í dag er alveg með ólíkindum og er samt sem áður skiljanleg í ljósi þess sem á undan er gengið. Ég benti á það í ræðu minni um daginn um annað mál að í íslensku virðist orðið ,,ráðherra`` hafa aðra merkingu, meiri valdbjóðandi merkingu en sambærilegt orð í nágrannalöndunum eins og ,,minister`` og ,,secretary``. Erlendu orðin hafa meiri auðmýkt gagnvart þjóðinni en hið íslenska. Mér finnst athafnir hæstv. forsrh. endurspegla akkúrat þennan mun. Þarna talar sá sem valdið hefur.

Um daginn lýsti ég yfir mikilli vanþóknun á því þegar hæstv. forsrh. lýsti því yfir að þinghald yrði langt fram á sumar án þess að það hefði verið rætt í forsn. þingsins. Síðan kemur fram yfirlýsing að það er farið að telja hvað þingmenn flytja langar ræður þó að það sé fyllilega í samræmi við þingsköp og það eru svo aldeilis alvarleg mál sem hér eru til umræðu. Nú er nýjasta hótunin sú að það eigi að breyta þingsköpum einhliða að ósk forsrh.

Herra forseti. Ég benti á í þessari sömu ræðu minni um daginn að stjórnarhættir af þessu tagi tíðkuðust yfirleitt ekki í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Og ég nefndi þá einmitt Loðvík þann XIV., þann sama og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi áðan, og bar saman þessa stjórnartilburði. Ég benti einnig á Jeltsín, forseta Rússlands, hvernig hann hefur núna með tilskipunum rekið alla stjórn sína. Ég velti því fyrir mér hvort það yrði næsta skrefið sem búast mætti við af hæstv. forsrh. Mér virðist vera komið upp allískyggilegt ástand og ég óttast þingræðið við þessar aðstæður.

Ég verð að koma því að, herra forseti, að þau mál sem hér hafa verið til umræðu eru svo stór og umfangsmikil að það er löngu, löngu ljóst að stjórnarandstaðan getur ekki látið þau fara fram hjá sér nema með því að sýna mjög mikla andstöðu og beita rökum. Því miður kemur í ljós að ekki er hlustað á þessi rök, eins og t.d. kom fram um daginn þegar við vorum að ræða eignarhaldsfrv., að á milli 2. og 3. umr. hafði ekki verið tekið mið af röngum skilgreiningum. (Forseti hringir.) Nú verður að breyta þessu ástandi og ég skrifaði því af heilum hug undir það bréf sem hv. þm. Svavar Gestsson las upp áðan og ég vona svo sannarlega að hæstv. forsrh. fari að því sem þar stendur. (Gripið fram í: Eigum við ekki að auglýsa þetta í Mogganum?)