Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 11:28:50 (6701)

1998-05-18 11:28:50# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[11:28]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Forseti vill af þessu tilefni, sem á nú að vera óþarfi, benda hv. þingmönnum á skyldu þeirra til að sækja alla þingfundi. Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að kanna hvort þeir, sem ekki eru hér á fundi og hafa ekki fjarvistarleyfi, eru hér nærri og boðar þá til þess að mæta á fundinn.

Hitt er út af fyrir sig athugunarefni að fresta fundi að beiðni stjórnarandstöðunnar þó að forseta sé ekki alveg ljóst hvað stjórnarandstaðan ætlar að ræða. Forseti vill spyrja hvort stjórnarandstaðan ætlar sér að ræða það að taka þá ekki þátt í atkvæðagreiðslunni. Það kann að vera svo. En þá bendir forseti líka á þingskapaákvæði um skyldu þingmanna til þess að taka þátt í atkvæðagreiðslunni.

Forseti vill freista þess að halda atkvæðagreiðslunni áfram þrátt fyrir þá augljósu staðreynd sem hér hefur verið dregin fram að stjórnarflokkarnir hafa ekki meiri hluta þingheims á fundinum. En það kemur ekki í veg fyrir að atkvæðagreiðslunni verði haldið áfram.