Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 11:31:19 (6703)

1998-05-18 11:31:19# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, RG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[11:31]

Rannveig Guðmundsdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við gerum okkur mjög vel ljóst hverjar skyldur okkar eru til að mæta á þingfundi. Stjórnarandstaðan hefur svo sannarlega axlað skyldur sínar á liðnum vikum. Hins vegar er líka ljóst að þessi atkvæðagreiðsla var að beiðni stjórnarmeirihlutans og það sem ég benti á þegar ég kom upp, og tjáði mig um atkvæðagreiðsluna, var að ég var ekki viss nema að þingflokkur minn hefði sóst eftir því að þessari atkvæðagreiðslu yrði frestað, ef hann hefði gert sér grein fyrir því að með viðveru sinni hér er hann að gera stjórnarmeirihlutanum kleift að fara í gegnum aðra atkvæðagreiðslu þess frv., sem við erum mjög andvíg. Sú er staðan í málinu.

Ég vil tilkynna herra forseta að ég muni ekki leggja það til við þingflokk minn að við tökum valdið í okkar hendur og göngum héðan úr atkvæðagreiðslu ef einhver heldur það. Mér finnst hins vegar ekki óeðlilegt að sú ósk sé borin fram að meiri hlutinn sjálfur axli ábyrgð á því að taka frv. af þessu tagi í gegnum þingið í kjölfar þeirrar umræðu og þess þunga sem verið hefur í málinu og öðrum stórum málum stjórnarmeirihlutans að undanförnu. Þetta segi ég, virðulegi forseti, í fullri alvöru.