Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 11:36:57 (6707)

1998-05-18 11:36:57# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SvG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[11:36]

Svavar Gestsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Málið snýst ekki um þingtækni eða þingsköp. Það snýst um efni málsins. Það er verið að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið. Margir þingmenn hafa tekið til máls af því tilefni og geta menn ekki skilið það, herra forseti, að það sé erfitt fyrir þá sem hafa talað gegn þessu, sumir lengi, að það skuli í raun og veru vera þeir sem hjálpi málinu í gegn? Það hlýtur að liggja í augum uppi að það er erfitt. Ég vil því bara skírskota til sanngirni hæstv. forseta og biðja hann að velta því fyrir sér hvort ekki væri eðlilegt að frestað þessari atkvæðagreiðslu um sinn og reyna að átta sig á stöðunni.

Greinilegt er að ríkisstjórnin heldur ekki nægilega vel utan um sín mál. Það er illa á málum haldið af hennar hálfu. Það er boðaður atkvæðagreiðslufundur undir mótmælum okkar og sagt: Eins og líf liggi við. Svo kemur í ljós að stjórnin getur ekki haldið þeirri atkvæðagreiðslu áfram. Frammistaða stjórnarliðsins í þessum máli er auðvitað algerlega með endemum, herra forseti.

Þess vegna vil ég spyrja hvort ekki sé skynsamlegt að hinkra í hálftíma eða svo til þess að kanna hvort ríkisstjórninni eða stjórnarliðinu tekst þá að ná vopnum sínum.

Hitt vil ég segja af minni hálfu og af hálfu þingflokks Alþb. og óháðra, að við munum gegna þingskyldum okkar samkvæmt þingsköpum og lögum landsins og hvergi víkjast undan í þeim efnum. Ég bið hæstv. forseta að skilja að vandi okkar er mikill og hann er efnislegur í málinu sem hér er á dagskrá.

(Forseti (ÓE): Forseti hefur heyrt þessar óskir og það hefur verið óskað eftir að stjórnarandstaðan fái tækifæri til þess að ráða ráðum sínum. Forseti ætlar að verða við þeirri ósk og fresta fundi til kl. 12.)