Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 13:35:50 (6761)

1998-05-18 13:35:50# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[13:35]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það er gott að ráðist skuli í úttekt á þessum málaflokki. Það er gott og jákvætt. Hins vegar á að gera það áður en lögin eru samþykkt, ekki eftir að lögin eru samþykkt. Þú tryggir ekki eftir á, segja tryggingafélögin. Auðvitað geta slys átt sér stað. En þegar menn sjá hætturnar hafa menn sér fátt til málsbóta reyni þeir ekki að koma í veg fyrir fyrirsjáanlegt slys.

Í þessu sambandi vil ég segja þetta: Það er lágmarkskrafa að áður en þetta frv. fær afgreiðslu og verður lögleitt komi fram skýlaus yfirlýsing og skuldbinding fest inn í sjálfan lagatextann um það fjármagn sem þarf að koma til sögunnar eigi 1. gr. frv. um aukið öryggi í húsnæðismálum, aukna möguleika fólks til að eignast og leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum að vera annað og meira en blekking og brandari, annaðhvort eða hvort tveggja í senn þessari ríkisstjórn til lítils sóma og almenningi í landinu til óþurftar.