Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 16:24:16 (6797)

1998-05-19 16:24:16# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[16:24]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það var athyglisvert að hlýða á afstöðu hæstv. ráðherra til þess hvort að húsaleigubætur eigi að vera skattskyldar. Hann taldi að raunverulega væri allt í lagi að húsaleigubætur væru skattskyldar þó að vaxtabætur væru það ekki. Þó erum við að tala hér um lægst launaða fólkið.

Hver er afstaða ráðherrans til tillögu okkar í minni hlutanum um að aflétta því öryggisleysi sem fólk þarf að búa við næstu tvö árin ef tillögur ráðherrans ná fram að ganga? Tillagan er um að þessu verði flýtt og að niðurstaða liggi fyrir 1. október 1998 þannig að framlög ríkissjóðs á næstu fjárlögum geti tekið mið af öllum þeim fjölda leiguíbúða sem þarf að byggja hér á næstu árum. Um það spyr ég hæstv. ráðherra og ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fá svar við því, herra forseti.

Afstaða hans til þess að lægst launaða fólkið eigi að bera skatt af húsaleigubótum var athyglisverð og það er athyglisverð kveðja til láglaunafólks að það sé allt í lagi að húsaleigubætur séu skattskyldar meðan vaxtabætur eru það ekki. Það er athyglisverð niðurstaða hér við þessa umræðu.