Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 16:26:14 (6799)

1998-05-19 16:26:14# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[16:26]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ræðu sinni áðan sagði hæstv. félmrh. að sitthvað þyrfti að skoða í þessu frv. Það þyrfti að ganga frá reglugerðum og skoða leigumarkaðinn og það þyrfti að skoða hitt og annað. Hvers vegna ekki, höfum við spurt, að gefa sér tíma til að ganga frá málum, ekki bara skoða þau heldur ganga frá málum og forða okkur frá stórslysum í húsnæðismálum?

Hæstv. félmrh. sagði að varðandi framtíðaröryggi starfsfólks, þá dygði ekki að vísa í stofnanir sem gerðar hefðu verið að hlutafélögum eða aðrar stofnanir sem breytt hefði verið að formi til. Við erum ekki að gera það. Við höfum gert það í málflutningi okkar að vísu að draga upp hliðstæður. En við höfum vitnað í orð hæstv. félmrh., Páls Péturssonar, sem gaf starfsfólki Húsnæðisstofnunar fyrirheit um að hann mundi gera allt sem í hans valdi stæði til að tryggja starfsöryggi starfsfólksins. Ef félmrh. er alvara með að standa við gefin fyrirheit þá samþykkir hann og styður þá tillögu sem við höfum lagt fram og talað fyrir í morgun um að starfsöryggið verði tryggt með lögum.