Afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 13:46:43 (6822)

1998-05-25 13:46:43# 122. lþ. 132.93 fundur 405#B afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu# (aths. um störf þingsins), Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[13:46]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er misskilningur að við höfum nokkurn áhuga á því, miðað við aðstæður, að gera tilraun til þess að stöðva þetta mál. Vandinn er sá að meiri hlutinn vill knýja málið fram og við höfum samið um það. Við munum standa við þann samning, a.m.k. minn þingflokkur. Það er alveg á hreinu, og stendur ekkert annað til.

Það sem vakti fyrir okkur var það að einn af frambjóðendum Sjálfstfl. í Reykjavík situr jafnframt hér, hæstv. forsrh. (Gripið fram í: Tveir.) Og reyndar tveir í dag, þeim hefur fjölgað um 100%. Hann skoraði á sjálfan sig fyrir helgina að stoppa þetta frv. Ég var að spyrja um það. Hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að hann ætli ekki að taka mark á þessari áskorun á sjálfan sig og þar við situr út af fyrir sig, en það er umhugsunarvert að í sama blaði Morgunblaðsins birtist heilsíðuauglýsing frá Sjálfstfl. í Reykjavík þar sem stóð: ,,Kosningar snúast um traust.`` Hver treystir mönnum sem halda á málum þannig að þeir eru augljóslega ekki að gera neitt annað en reyna að blekkja kjósendur eins og hér kemur á daginn í þessari umræðu?

Hæstv. forsrh. lýsir því jafnframt yfir að Sjálfstfl. hafi tekið ákvörðun um að svíkja eina kosningaloforðið sem hann gat efnt í Reykjavík úr því að hann lenti í minni hluta. Það var að stoppa þetta mál. Auðvitað hefði hæstv. forsrh. getað beitt sér fyrir því að fresta þessu máli, auðvitað gat hann það. En veruleikinn er sá að það var vísvitandi verið að reyna að blekkja kjósendur. Það er ekkert annað sem fyrir þeim vakti. Ég spyr hæstv. forsrh. að lokum: Úr því að þetta er þannig að málið var ekki borið undir hann, hafði hann samband við frambjóðendur Sjálfstfl. og sagði þeim skoðun sína strax og fréttatilkynningin birtist? Reyndi hann að leiða þá í sannleika um hver var afstaða hans í þessu máli eða hvað? Eða sat hann og þagði og tók þannig ábyrgð á alvarlegri tilraun til að blekkja kjósendur undir auglýsingu --- um hvað? Um traust.