Afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 13:48:59 (6823)

1998-05-25 13:48:59# 122. lþ. 132.93 fundur 405#B afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[13:48]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það hefur verið rætt um borgarstjórnarflokk Sjálfstfl. Eins og menn þekkja er hann skipaður af borgarfulltrúum og varaborgarfulltrúum, jafnmörgum. Þeir gefa út yfirlýsingar í nafni flokksins, ekki í nafni allra frambjóðenda sem eru í sætum og eru aftarlega á listum eins og menn þekkja. Það er ekki haft samráð við þá um slík atriði.

Umræðan snýst um þessa hluti með mjög skrýtnum formerkjum. Við skulum ekki gleyma því að Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þar sem R-listinn er þungavigtaraðili, styður þessa málsmeðferð.

Borgarstjórinn í Reykjavík reyndi nokkrum dögum fyrir kosningar að tala um frestun á tilteknu ákvæði sem fulltrúar R-listans í stjórn höfuðborgarsvæðisins höfðu hins vegar stutt. Þar eru hrein óheilindi á ferðinni, ekki hjá mér.

Hv. 12. þm. Reykv. kom hér upp og fór reyndar rangt með allt. Hún byrjaði að fullyrða að ég hefði skrifað undir einhverja yfirlýsingu. Tóm vitleysa. Byrjaði að fullyrða að ég hefði sagt að þjóðin hefði rangt fyrir sér og ég rétt, öll þjóðin hefði misskilið hlutina. Hvar sagði ég það? Það er jafnrangt og fyrsta fullyrðing þingmannsins. Ég sagði ekki neitt um það.

Hins vegar er meginefnið í yfirlýsingu frambjóðenda Sjálfstfl. í borgarstjórnarhópnum sú að vilja ná þjóðarsátt um málið. Þar er ekkert fullyrt. Við vitum það að meira að segja fulltrúar Alþb. munu reynast sáttir við málið þegar frv. það sem við höfum lagt fram í ríkisstjórninni verður afgreitt næsta haust. Það var frv. sem hefði nægt hv. þm. Alþb. Það mun verða afgreitt næsta haust og þá er náttúrlega komin þjóðarsátt, a.m.k. ætti stór hluti þjóðarinnar að vera sáttur við málið.

En það er ekki vanþörf á því að kynna þetta mál mjög rækilega. Því miður hafa einstakir þingmenn reynt að auka ruglandann í málinu, ekki hitt.