Umboðsmaður jafnréttismála

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 12:11:32 (6988)

1998-05-27 12:11:32# 122. lþ. 134.9 fundur 82. mál: #A umboðsmaður jafnréttismála# frv., Frsm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[12:11]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. félmn. um frv. til laga um umboðsmann jafnréttismála.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið sendar umsagnir m.a. frá félagsmálaráðuneyti og Bandalagi háskólamanna. En þessi tillaga hafði verið lögð fram áður og þá bárust einnig nokkrar umsagnir.

Með frumvarpi þessu er lagt til að stofnað verði embætti umboðsmanns jafnréttismála frá ársbyrjun 1999. Meginverkefni umboðsmanns væru að fylgjast með því að hvarvetna í þjóðfélaginu væru höfð í heiðri ákvæði laga, alþjóðasamninga og hliðstæðra samþykkta um jafnrétti kynjanna. Jafnframt skuli umboðsmaður bregðast við með tiltækum úrræðum telji hann að brotið sé gegn þessum ákvæðum. Þá væri fræðsla og kynning einnig mikilvægur þáttur slíks embættis og gerð tillagna um úrbætur á réttarreglum og fyrirmælum stjórnvalda um jafnrétti kynjanna. Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir samstarfi embættis umboðsmanns jafnréttismála við aðra aðila stjórnsýslunnar sem vinna að jafnrétti kynjanna auk þess sem skrifstofa jafnréttismála verði styrkt til að geta þjónað embættinu. Flutningsmenn frumvarpsins telja að nauðsyn góðrar stjórnsýslu á sviði jafnréttismála sé nú almennt viðurkennd og að stofnun embættis jafnréttismála geti vegið þungt til að því markmiði verði náð.

Í umsögn félagsmálaráðuneytisins, dags. 1. desember sl., kemur fram að lög nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, séu nú til endurskoðunar í ráðuneytinu. Við þá endurskoðun eigi m.a. að taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til að stofna embætti umboðsmanns jafnréttismála.

Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Undir þessa tillögu skrifar allir nefndarmenn í félmn.