Skipting aukinna aflaheimilda

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 12:59:15 (7095)

1998-05-28 12:59:15# 122. lþ. 136.96 fundur 424#B skipting aukinna aflaheimilda# (aths. um störf þingsins), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[12:59]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég verð að játa að mér fundust þetta nokkuð snautleg svör hjá hæstv. sjútvrh. þegar við erum að fjalla um gjörbreytta stöðu varðandi aflaheimildir þjóðarinnar og fréttir sem hafa verið að berast af auknum veiðimöguleikum sem allir hafa fagnað. Það er þannig að ákveðin svæði á landinu hafa farið mjög illa út úr kvótakerfinu á undanförnum árum þar sem aflaheimildir hafa verið seldar miskunnarlaust burt og sums staðar horfir svo við að nánast er ekki neinn frumburðarréttur eftir á staðnum. Menn vinna við að veiða leigukvóta.

Ég verð að játa að það yrðu mér mikil vonbrigði, þegar við blasir að veiðiheimildir verði auknar, ef ekki á að veita þessum svæðum neina úrbót samkvæmt þeim svörum eða því litla sem ég gat lesið út úr því sem hæstv. sjútvrh. sagði áðan. Ég harma það, hæstv. forseti, og hefði viljað að við tækjum þessi mál til umræðu og reynt yrði að úthluta þessum veiðiheimildum sem umfram eru núna á nýjan hátt en ekki mest til þeirra sem mest hafa fyrir.