Eftirlit með skipum

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 13:35:29 (7105)

1998-05-28 13:35:29# 122. lþ. 136.13 fundur 593. mál: #A eftirlit með skipum# (farþegaflutningar) frv. 74/1998, GHall
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[13:35]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hér er vissulega nauðsynjamál á ferðinni sem löngu var tímabært að fram kæmi og tengist minni bátum sem notaðir hafa verið til farþegaflutninga við strendur landsins.

Það sem hins vegar vekur athygli mína er að í 1. gr. segir svo, með leyfi forseta:

,,Skipstjóri skal varðveita um borð í skipi skjal er sannar gildi leyfisins.``

Það þýðir að skipstjóri á að geyma þetta plagg nánast ofan í skúffu. Ef menn setjast upp í leigubíl þá er leyfið á áberandi stað ef það er í gildi. Það er sett á áberandi stað svo farþeginn sjái að viðkomandi aðili hafi þetta leyfi. Ég spyr: Hvers vegna er ekki sama krafa gerð til fólkflutningabáta, að þetta leyfi sé sett upp á áberandi stað fyrir farþegana þannig að þeir geti glögglega séð að bæði leyfi og öryggiskröfum varðandi farþega er fullnægt?

Í annan stað er það nokkuð athyglisvert þegar talað er um að Siglingastofnun skuli ákveða fjölda í áhöfn. Nú eru til lög og reglugerðir sem kveða á um fjölda aðila, bæði skipsstjórnendur og þá sem stjórna vél. Þar eru þekkt lög og reglur um það hvernig með skuli fara. Nú spyr ég: Er verið að færa þetta úr höndum löggjafans þannig að Siglingastofnun hafi ótakmarkað vald til þess að ákveða mönnun þessara báta?

Hér segir svo, með leyfi forseta, í umsögninni með 1. gr.:

,,Þá er lagt til að í lög um eftirlit með skipum verði sett ákvæði um að farþegaflutningar með skipum séu háðir leyfi. Af slíku ákvæði leiðir að farþegaflutningar með skipum yrðu óheimilir án slíks leyfis. Tilgangurinn með ákvæðinu er að lögfesta skýran grundvöll fyrir samræmdu eftirliti með smíði og búnaði skipa í farþegaflutningum, aðbúnaði og öryggi farþega, mönnun skipanna, atvinnuréttindum og þjálfun skipverja og öðrum öryggisþáttum í starfseminni. Lagt er til að sækja þurfi um leyfi til farþegaflutninga með skipi og að Siglingastofnun Íslands gefi út slíkt leyfi þegar sýnt hefur verið fram á að uppfyllt séu ákvæði laga og reglugerða sem um skipið og starfsemi þessa gilda. Átt er við lög um eftirlit með skipum og reglugerðir sem settar hafa verið með stoð í þeim lögum, en einnig önnur lög og reglugerðir sem gilda um skip í farþegaflutningum. Sem dæmi um slík lög má nefna siglingalög og atvinnuréttindalög.``

Í ákvæðum Siglingastofnunar varðandi úttekt á bol skips og reisn þess hefur eingöngu verið miðað við skip sem væru í siglingum á sjó. Nú sá ég í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi að þeir sem hafa hug á því að kaupa nokkuð stórt skemmtiferðaskip, til þess að sigla á vatni, kvörtuðu yfir því að það væri gerð sama krafa til bols þess skips og skipa sem sigla á opnu úthafinu. Ég hlýt að spyrja formann samgöngunefndar: Var þetta eitthvað rætt og gert ráð fyrir að þarna yrði breyting gerð á, þannig að ekki væri sama krafa á þykkt stáls í skrokki skips sem siglir á stöðuvötnum og gerð er til þeirra skipa sem sigla á úthafinu?

Þá vekur tryggingarskylda eigenda gagnvart farþegum einnig athygli. Segja má að hér sé gerð krafa um að farþeginn sé betur tryggður en hin eiginlega áhöfn. Það er sérkapítuli út af fyrir sig sem síðar mun koma fram á öðrum vettvangi.

Fyrst og fremst kom ég hér inn á ákvæði um mönnunarreglur þessara skipa svo og líka til að spyrja hvort menn ætli virkilega að gera sömu kröfur til þeirra skipa sem sigla á ám og vötnum og gerðar eru til farþegaskipa sem sigla fyrir opnu hafi.