Eftirlit með skipum

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 13:44:40 (7107)

1998-05-28 13:44:40# 122. lþ. 136.13 fundur 593. mál: #A eftirlit með skipum# (farþegaflutningar) frv. 74/1998, GHall
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[13:44]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég tók þeim rökum sem hérna komu fram að öllu leyti nema því sem snýr að skírteininu sem útgefið skal af hálfu Siglingastofnunar og á að staðfesta að skip og búnaður sé í lagi. Við setjumst ekki í leigubifreið öðruvísi en að þar liggi skírteini í mælaborði eða í glugga, sem sýnir að viðkomandi aðili hafi tilskilin réttindi og leyfi og við séum að fullu tryggð. Við förum ekki upp í lyftu öðruvísi en þar hangi skírteini sem segir til um að lyftan sé í lagi og hafi verið tekin út nýlega. Þess vegna kemur það mér ákaflega spánskt fyrir sjónir að sjá að um borð í bát sem flytja á 60--100 manns, megi hafa skírteinið, sem allt segir um búnað og öryggi skipsins, réttindi manna, einhvers staðar ofan í skúffu. Farþegarnir um borð vita því ekki hvort þarna sé rétt eða rangt farið með. Það var aðeins þetta sem ég vildi vekja athygli nefndarinnar á. Að öðru leyti hef ég ekki meira við þetta að athuga.