Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 18:16:51 (7143)

1998-05-28 18:16:51# 122. lþ. 136.7 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál. 19/122, 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[18:16]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kaus nú eins og áður að halda því fram að í þessari langtímaáætlun væri ekki gert ráð fyrir jarðgöngum. Þvert á móti er í áætluninni gert ráð fyrir að verulegu fé, 10 millj. kr. á ári, eigi að verja nú þegar til jarðgangarannsókna.

Það er á hinn bóginn rétt hjá hv. þm. að ekki er við því að búast að ráðist verði í ný jarðgöng á næsta ári eða því ári sem síðan kemur því að reikna má með að ekki skemmri tími en tvö til þrjú ár fari í rannsóknir og undirbúning áður en framkvæmdir geti hafist eftir að ákvörðun hefur verið tekin um jarðgöng. Það er því síður en svo að við séum nálægt því, eins og nú standa sakir, að geta greitt um það atkvæði að hefja jarðgangagerð á næsta eða þarnæsta ári.

Ég vil jafnframt segja, herra forseti, að mér þótti það sýna einurð hv. þm. að hann skyldi enn minna á að hann hafi verið andvígur því að leggja veg milli Norður- og Austurlands en hugsaði sér að láta slíka tengingu milli þeirra fjórðunga bíða þess að jarðgöng kæmu til Vopnafjarðar á sama tíma og verið var að byggja upp Hellisheiðina. Þannig að maður getur rétt ímyndað sér hvenær af slíku hefði getað orðið og átta ég mig ekki alveg á tímasetningu hv. þm. í þeim efnum.

En hitt er rétt sem hv. þm. sagði, og ég get tekið undir, að það er ýmislegt sem vantar upp á að við getum staðið okkur nægilega vel í því að byggja upp vegina. Hann ætlar sér með tillöguflutningi sínum að leggja bundið slitlag til allra þéttbýlisstaða á landinu með 100 íbúum eða fleiri með því að bæta 2,5 milljörðum við til ársins 2000. Þessi áætlun sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir nýjum verkefnum upp á rétt tæpa 20 milljarða á næstu tólf árum, og er þó mat hv. þm. þannig að hvergi nærri verði staðið við lágmarkskröfur.

Það má þess vegna velta því fyrir sér hvort framkvæmdamáttur krónunnar sé meiri eftir því hvor talar, ég eða hv. þm.