Söfnunarkassar

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 18:28:45 (7148)

1998-05-28 18:28:45# 122. lþ. 136.21 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., Frsm. HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[18:28]

Frsm. allshn. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um brottfall laga nr. 73/1994, um söfnunarkassa, og um frv. til laga um breytingu á lögum um Happdrætti Háskólans, nr. 13/1973, með síðari breytingum. Þetta eru hliðstæð mál og því eru þau tekin saman.

Allshn. fjallaði um þessi mál.

Umsagnir bárust frá Sýslumannafélagi Íslands, Íslenskum söfnunarkössum, Íþróttasambandi Íslands, Rauða krossi Íslands, Landsbjörg, landssambandi björgunarsveita, Geðlæknafélagi Íslands, Samtökum áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, Slysavarnafélagi Íslands, sýslumanninum í Bolungarvík, dómsmálaráðuneytinu, Neytendasamtökunum, ríkislögreglustjóra og Ragnari Gíslasyni. Einnig fór nefndin í heimsókn til Rauða kross Íslands í tengslum við umfjöllun um málin.

Nefndinni bárust upplýsingar frá dómsmálaráðuneytinu um að ákveðið hefði verið að taka happdrættismálefni í heild sinni til endurskoðunar og að skipuð hefði verið nefnd í því skyni sem í eiga sæti fulltrúar dómsmálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis. Nefndin tekur undir nauðsyn þess að löggjöf um happdrættismálefni verði endurskoðuð. Í ljósi þess að nú er unnið að þeim málum á vegum ríkisstjórnarinnar leggur nefndin til að þessum málum báðum verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Undir nál. rita allir hv. þm. fulltrúar í allshn.