Söfnunarkassar

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 18:48:24 (7155)

1998-05-28 18:48:24# 122. lþ. 136.21 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[18:48]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að hv. þm. Ögmundur Jónasson væri lífsreyndari en svo að hægt sé að véla hann til að telja að þetta mál verði með einhverjum hætti afgreitt af hálfu ríkisstjórnarinnar þannig að það nálgaðist tilgang þeirra mála sem hér liggja fyrir. Ég tel að það sé með ólíkindum. En ef svo er þá er ég auðvitað reiðubúinn til að endurskoða mína afstöðu í þessu máli, sem að öðru leyti fælist í því að greiða atkvæði gegn þessari afgreiðslu. En það væri þá kannski í lagi að hv. þm. upplýsti okkur um hvaða fyrirheit þetta eru. Nú tek ég að vísu fram, herra forseti, að ég var ekki kominn í salinn þegar hv. þm. Hjálmar Jónsson flutti framsögu sína og má vel vera að þau hafi komið fram þar. Ef svo er óska ég eftir að hv. þm. upplýsi mig um þetta, en ef ekki þá vildi ég gjarnan vita hvaða fyrirheit það eru sem hafa komið fram, að því er virðist af hálfu fulltrúa ríkisstjórnarinnar, sem réttlæta það að þetta mál sé, samkvæmt hefðinni, í rauninni lagt á banasængina með því að vísa því til ríkisstjórnarinnar.