Söfnunarkassar

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 18:49:34 (7156)

1998-05-28 18:49:34# 122. lþ. 136.21 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[18:49]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér hafa engin fyrirheit verið gefin. Hins vegar segir í nál. allshn. að nefndinni hafi borist upplýsingar frá dómsmrn. um að ákveðið hefði verið að taka happdrættismálefni í heild sinni til endurskoðunar og að skipuð hafi verið nefnd í því skyni sem í eigi sæti fulltrúar dómsmrn., félmrn., fjmrn., heilbr.- og trmrn. og menntmrn.

Nú vitum við að fjöldinn allur af umdeildum frv. sem ríkisstjórnir eða meiri hluti á Alþingi ætlar að svæfa eða vill ekkert með hafa sofnar í nefndum. Þau sofna í nefndum, fá ekki afgreiðslu þar. Í því að vísa þessu máli til úrvinnslu hjá ríkisstjórninni felst það fyrirheit að á málinu verði tekið á einhvern hátt. Ég er ekki í sjálfu sér að verja þá afgreiðslu, alls ekki. Ég er sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að nær væri að samþykkja þessi frv., ég er hjartanlega sammála honum um það. En ég vil ofar öllu að við höfum árangur af þessari tilraun okkar til þess að fá lagt bann við þessum spilavítum á Íslandi og þessari viðurstyggilegu aðferð til að afla fjár til annars ágætrar starfsemi, háskólamenntunar og allra þeirra samtaka sem ég gat um áðan, en ofar öllu öðru vil ég árangur og við munum fylgjast með því að við sjáum árangur af þessari viðleitni okkar.