Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 12:17:42 (7202)

1998-06-02 12:17:42# 122. lþ. 139.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál. 28/122, Frsm. meiri hluta TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[12:17]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Um leið og ég fagna þeim stuðningi sem komið hefur fram hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, þá vil ég gera aðeins stutta athugasemd við það sem kom fram í máli hv. þm.

Hv. þm. taldi að sá réttur sem NATO áskilur sér að beita að fyrra bragði í kjarnorkuvopnum sé hluti af fortíðinni, hluti af kalda stríðinu. Við þessu er ekkert annað að segja en það að Atlantshafsbandalagið verður að standa frammi fyrir þeirri staðreynd að mikið kjarnorkuveldi er í austri þar sem stjórnmálaástandið er afar valt og viðkvæmt og lítið þarf út af að bregða til að þar rísi upp valdhafar sem hafa allt annað á könnunni en að vinna að auknum friði og styrktu öryggi í Evrópu. Einnig má geta þess að þær þjóðir Atlantshafsbandalagsins sem búa syðst í álfunni hafa vaxandi áhyggjur af ,,fundamentalisma`` múhameðstrúarmanna. Eins og komið hefur í ljós á síðustu dögum er sá tæknilegi þröskuldur ekki lengur hjá mörgum þjóðum að eignast kjarnorkuvopn eins og áður var. Þess má geta að þegar þjóðir eins og Indland og Pakistan eru farin að framleiða kjarnorkuvopn, þá er einnig möguleiki á að þau selji slík vopn.

Í öðru lagi langar mig til að benda á að þessi geopólitíska staða, að Rússar telji Austur-Evrópu eða Mið-Evrópu vera sitt land og hafi seilst þess vegna til áhrifa í Evrópu er að sjálfsögðu alveg hárrétt hjá hv. þm. en það er í sjálfu sér ekki hægt að sætta sig við það að svo sé. Þess vegna hef ég alltaf lagt áherslu á að þjóðir Evrópusambandsins þurfi að leggja megináherslu á efnahagslegt samstarf við Rússa til að draga úr þessum geopólitísku hugleiðingum sem lengi hafa stjórnað utanríkisstefnu Rússa, raunar meira en eina öld, ef ekki lengur má telja.