Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 12:53:57 (7209)

1998-06-02 12:53:57# 122. lþ. 139.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál. 28/122, SP
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[12:53]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta mál var rætt nokkuð ítarlega við fyrri umr. Þar lét ég sjónarmið mín í ljós. Engu að síður tel ég rétt að undirstrika þau enn frekar hér þó í stuttu máli sé.

Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Tómasi Inga Olrich fyrir framsögu hans fyrir því meirihlutaáliti sem hér er til umræðu. Það er mikið fagnaðarefni að stækkun Atlantshafsbandalagsins í austurátt sé loks að hefjast. Árum saman hefur bandalagið stuðlað að auknum og bættum samskiptum við ríki Mið- og Austur-Evrópu, þar með talið Rússland og Úkraínu. Samstarf bandalagsins við þau ríki hefur þróast vonum framar.

Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað vil ég taka undir með hv. formanni utanrmn. er hann lýsir undrun á málflutningi og afstöðu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur fyrir hönd Alþb. og óháðra. Það ber að undirstrika að þau þrjú ríki sem hér um ræðir, sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu sem frjáls ríki og hafa sótt það fast í mörg undanfarin ár. Varla getur það dulist fyrir hv. þm. hvers vegna þessi ríki leggja svo ríka áherslu á að fá þessar óskir sínar uppfylltar.

Ég vil líka undirstrika það að NATO er varnarbandalag og raunar friðarbandalag, svo mjög sem þeir hafa beitt sér fyrir auknum friði og stöðugleika í Evrópu. Atlantshafsbandalagið er vörður friðar og frelsis.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hélt nokkuð sérstaka ræðu og talaði um að stækkun NATO mundi hafa í för með sér m.a. endurreist járntjald. Hann taldi það viðhalda og jafnvel auka spennu í álfunni. Hann vildi fara allt aðra leið. Hann vildi bara leggja niður NATO og þá yrði stöðugleikinn væntanlega tryggður og öryggið aukið enn frekar. Þingmaðurinn hefur áður látið sínar skoðanir varðandi Atlantshafsbandalagið skýrt í ljós. Þar kemur ekkert á óvart en ég er auðvitað algerlega ósammála málflutningi hans og vil að það komi skýrt fram.

Virðulegi forseti. Alls sækjast nú 12 ríki eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu. Þessi ríki telja aðild að bandalaginu öðru fremur geta tryggt öryggi sitt, stuðlað að stöðugleika í álfunni, stutt við bakið á þróun lýðræðis og eflingu mannréttinda. Bandalagið er eina stofnunin í evrópskum öryggismálum sem reynst hefur fær um að koma á og viðhalda friði í Bosníu-Hersegovínu, enda er Atlantshafsbandalagið helsti vettvangur náinnar samvinnu ríkja Evrópu og Norður-Ameríku í öryggis- og varnarmálum. Atlantshafsbandalagið bindur saman hagsmuni Evrópu og Norður-Ameríku og á vettvangi bandalagsins mynda stjórnvöld þessara ríkja náin tengsl sem leggja ber áherslu á að viðhalda og rækta.

Sem formaður Íslandsdeildar Norður-Atlantshafsþingsins langar mig til að geta þess að öll viðkomandi ríki hafa nú árum saman haft aukaaðild að þinginu. Hið sama má raunar segja um Rússland, Úkraínu og Hvíta-Rússland þótt fulltrúar þess síðastnefnda hafi ekki átt þess kost að taka þátt í störfum þingsins síðan lýðræðislega þjóðkjörið þjóðþing landsins var sent heim hér um árið. Ég tel að þessi tengsl hafi m.a. orðið til að efla gagnkvæmt traust, ekki síst hvað varðar Rússland og Úkraínu. Því kom það ekki á óvart að í þeim samstarfssamningum sem Atlantshafsbandalagið hefur nýverið gert við Rússland og Úkraínu var þess sérstaklega farið á leit, við Norður-Atlantshafsþingið, að það stuðlaði áfram að nánum samskiptum við þjóðþing viðkomandi ríkja og jafnvel að það efldi þau enn frekar.

Eins og ég hef áður látið koma fram höfum við á vettvangi Norður-Atlantshafsþingsins ítrekað tekið þátt í að álykta með stækkun Atlantshafsbandalagsins í austurátt. Þar hafa sumir raunar viljað stíga stærri skref en aðrir en Íslandsdeildin hefur lagt áherslu á að fara varlega, að ekki mætti færast of mikið í fang í senn, heldur bæri að fara með gát að stækkun. Bandalagið þarf svigrúm til að laga sig að auknum fjölda aðildarríkja. Með því að fara varlega í sakirnar verður hægara um vik en ella að halda stækkun bandalagsins áfram.

Á leiðtogafundi bandalagsins í júlí sl. var skýrt tekið fram að dyr bandalagsins stæðu áfram opnar lýðræðisríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Eystrasaltsríkin voru m.a. nefnd sérstaklega í yfirlýsingu fundarins. Þess má einnig geta að á nýafstöðnum vorfundi Norður-Atlantshafsþingsins voru stækkunarmálin rædd ítarlega og lögð áhersla á öflug samskipti við rússneska þingið. Rússar hafa raunar verið hafðir með í ráðum á ótal mörgum sviðum, m.a. hefur þeim verið tilkynnt fyrir fram um allar æfingar NATO og boðin þátttaka.

Á þessu vorþingi var raunar aðeins einn rússneskur þingmaður sem eitthvað heyrðist í, það var Zhírínovskí nokkur sem okkur Íslendingum er vel kunnugur. Þessi þingmaður talaði í hótunartóni en ég varð ekki vör við að nokkur tæki hann alvarlega. Hitt er svo aftur annað mál að stórkarlalegar yfirlýsingar kalla á athygli fjölmiðla.

[13:00]

Virðulegi forseti. Í Póllandi, Tékklandi og Ungverjalandi hefur á fáeinum árum tekist að þróa stöðugt lýðræði. Þar hafa gífurlegar umbætur átt sér stað. Það er eindregin ósk þessara ríkja að fá aðild að bandalaginu. Þau telja það tryggja öryggi sitt og stuðla að öryggi og stöðugleika í álfunni allri. Ég legg áherslu á að mikilvægi þess að aðildarsamningar Póllands, Tékklands og Ungverjalands að Atlantshafsbandalaginu verði samþykktir og fagna því að stækkun bandalagsins til austurs sé nú loks að verða að veruleika.