Aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 18:27:10 (7291)

1998-06-02 18:27:10# 122. lþ. 141.19 fundur 592. mál: #A aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum# þál. 27/122, Frsm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[18:27]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. félmn. um till. til þál. um aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum.

Öll nefndin skrifar undir þetta nál.

Tillagan felur það í sér að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd með fulltrúum stjórnmálaflokka, skrifstofu jafnréttismála og Kvenréttindafélagi Íslands til að skipuleggja þverpólitískar aðgerðir til að bæta hlut kvenna í stjórnmálum. Nefndin starfi a.m.k. í fimm ár, taki til starfa hið fyrsta og hafi heimild til að ráða sér verkefnisstjóra, sem starfi á skrifstofu jafnréttismála. Nefndin annist fræðslu, auglýsingaherferðir og útgáfu og hafi allt að 5 millj. kr. til ráðstöfunar í þessu skyni árið 1998 og síðan fjárveitingar samkvæmt fjárlögum.

Nefndin er sammála um að þetta sé þörf aðgerð og leggur til að tillagan verði samþykkt.

Hæstv. forseti. Það var mikil eining um þessa tillögu í félmn. og það vill svo til að nú er innan við ár til alþingiskosninga og því er brýnt að tillagan verði samþykkt og þessu verkefni komið af stað þannig að þeim verkefnisstjóra og þeim sem munu annast þetta verkefni gefist tími til að hefja undirbúning og geti haft áhrif þegar stjórnmálaflokkarnir fara að undirbúa sín framboð. Ég vil taka það fram að ég tel þetta vera mjög gott mál og löngu tímabært.