Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 18:30:51 (7292)

1998-06-02 18:30:51# 122. lþ. 141.18 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál. 26/122, Frsm. meiri hluta ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[18:30]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. umhvn. hefur fjallað um 465. mál, sem er till. til þál. um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald.

Nefndin sendi eins og vera ber málið út til umsagnar og bárust umsagnir frá ýmsum aðilum. Það voru: Bændasamtök Íslands, Skotveiðifélag Íslands, Hafrannsóknastofnun, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Skipulagsstofnun, Landvernd, Lögmannafélag Íslands, félagsmálaráðuneytið, sjávarútvegsráðuneytið, Náttúruvernd ríkisins, Landgræðsla ríkisins, iðnaðarráðuneytið, Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Náttúrufræðistofnun Íslands, Ferðamálaráð, Orkustofnun, Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Náttúruverndarráð.

Í tillögunni er lagt til að kosin verði níu manna nefnd sem hafi það hlutverk að fjalla um auðlindir sem eru eða kunna að verða þjóðareign. Nefndinni er ætlað að skilgreina þessar auðlindir á skýran hátt og hvernig skuli með þær farið. Þá er nefndinni ætlað að kanna hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar.

Meiri hluti nefndarinnar mælir með því að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Orðin ,,neðan við 100 m dýpi`` í 1. málsl. 1. mgr. tillögugreinarinnar falli brott.

Meiri hluti nefndarinnar samanstendur af hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni, Hjörleifi Guttormssyni, Tómasi Inga Olrich, Láru Margréti Ragnarsdóttur, Kristjáni Pálssyni og Árna M. Mathiesen.